„Ég skulda henni ekki neitt“

Segja farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við íslenskan karlmann

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tvær erlendar konur reyna nú að fá lán til íslensks karlmanns endurgreidd. Frá þessu er greint í Fréttatímanum en þar segja konurnar farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við manninn.

Í síðustu viku sagði Fréttatíminn frá breskri konu á sextugsaldri að nafni Lindsey Andrews sem lánaði Sigurjóni Einarssyni 20 milljónir króna árið 2009 en hún segist ekki hafa fengið lánið endurgreitt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Í kjölfar umfjöllunar Fréttatímans steig norska listakonan Annine Birkeland fram og greinir frá því þegar hún lánaði Sigurjóni eina milljón norskra króna, sem samsvarar um 22 milljónum íslenskra króna á núgildi, en hefur aðeins fengið upphæðina endurgreidda að hluta til.

Annine segir frá því þegar Sigurjón vann undir stjórn hennar við verkefni tengt listum og menningu. Þurfti Sigurjón að fara til New York vegna verkefnisins en hún segir hann hafa tjáð henni að hann gæti ekki farið nema hún lánaði honum peninga. „Hann sagðist þurfa að bjarga húsinu og konu sinni og börnum og að hann kæmist því´ekki til New York nema ég lánaði honum peninga,“ segir Annine í samtali við Fréttatímann.

Hún segir við Fréttatímann að hún hefði treyst honum því hann hefði sýnt henni að hún gæti það. Annine hafði lent í hjólreiðaslysi og fékk bætur vegna þess. Hún segir að Sigurjón hafi vitað af þeim bótum.

„Ég á ekki peninga, ég er listamaður. Þetta er í raun mannlegur harmleikur. Ég þurfti að selja bílinn minn og grípa til ýmissa ráðstafana vegna þessa,“ segir Annine.

Sigurjón Einarsson segir í samtali við Fréttatímann að fullyrðingar hennar standist ekki. „Ég fékk fyrirframgreitt fyrir vinnu mína,“ segir Sigurjón sem segir bókhald fyrirtækis Annine ekki hafa passað og því borgaði hann til baka. Hann fékk 700 þúsund fyrir og hann borgaði síðan 600 þúsund til baka. „Restin voru laun. Ég á pappíra til að sýna fram á það. Ég skulda henni ekki neitt.“

Fréttina í heild má lesa í Fréttatímanum hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.