Baldur fær að afplána á lögmannsstofu

Var dæmdur fyrir innherjasvik

Mynd: © Róbert Reynisson

Baldur Guðlaugsson, sem dæmdur var í Hæstarétti í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik, afplánar dóminn á áfangaheimilinu Vernd og starfar á daginn hjá lögmannsstofunni Lex.

„Baldur hefur verið hér við störf í viku,“ segir Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri Lex lögmannsstofu við Smuguna, sem greinir frá málinu.

Dæmdur fyrir brot í starfi og innherjasvik

Baldur var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti fyrir að hafa notað innherjaupplýsingar sem hann hafði aðgang að vegna starfs síns sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu til að koma í veg fyrir 190 milljóna króna tap á hlutabréfum sem hann átti í Landsbankanum. Brotin sem Baldur var dæmdur fyrir í héraðsdómi varða allt að níu ára fangelsisrefsingu.

Bréfin seldi Baldur þremur vikum fyrir efnahagshrunið haustið 2008 en hann hafði setið í samráðshóp á vegum ráðuneytanna sem fjallaði meðal annars um aðgerðir sem gripið yrði til kæmi til þess að einhver viðskiptabankanna færi í þrot. Lögmannsstofan mun vera ánægð með störf Baldurs. Störf hans felast í ýmsum verkefnum sem eigendur stofunnar veita honum.

Dvelur á Vernd

Áfangaheimilið Vernd er valkostur fyrir fanga en þar þurfa þeir að starfa eða stunda nám á daginn. Þeir að fylgja ákveðnum húsreglum, þeir mega til dæmis ekki neyta áfengis eða fíkniefna og er gert að mæta alla virka daga í kvöldmat. Föngum er óheimil útivist frá klukkan ellefu á kvöldin til sjö á morgnanna á virkum dögum, og frá klukkan níu á kvöldin til sjö á morgnanna um helgar. Frá opnun áfangaheimilisins hafa 85 prósent þeirra sem sótt hafa um vist hjá Vernd fengið beiðni sína samþykkta.

Áfangaheimilið er séð sem áfangastaður þeirra fanga sem hrasað hafa í lífinu. „Hver sá sem sækir um vist í húsinu er vissulega í einhvers konar vanda staddur og er reynt hverju sinni að leysa mál viðkomandi. Dvöl í húsinu er áfangi út í lífið eftir að hafa lent í hretviðri lífsins og hrasað illilega,“ segir meðal annars á vefsíðu heimilisins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.