Öfgafemínisti á túr í strætó

Hvernig væri heimurinn ef karlar færu á blæðingar en ekki konur?

Mynd: Mynd: Eyþór Árnason

„Heimurinn er þannig að blæðingar eru kvenna og aðeins kvenna. Það er mín reynsla að blæðingar eru jaðarsettari sem umræðuefni í kynjablönduðum hópum en kynlíf, hægðir og jafnvel sjálfsfróun,“ skrifar Hildur Lilliendahl á vefsíðuna Knúz.is í dag.

Þar fjallar hún um blæðingar og vitnar til orða Gloriu Steinem um það hvernig heimurinn væri ef blæðingar væru hlutskipti karla en ekki kvenna auk þess sem Hildur segir af sinni eigin reynslu um það hvernig það er að byrja skyndilega á túr, óviðbúin í strætó.

Einungis karlar gætu þjónað Guði

Hildur bendir á að Gloria Steinem, sem er bandarískur femínisti, blaðamaður og aðgerðasinni, taldi að ef það væri hlutskipti karla að hafa á klæðum þá myndi hægri vængur stjórnmálamanna og bókstafstrúarmenn túlka blæðingar sem ótvíræða sönnun þess að einungis karlar gætu þjónað Guði og þjóð í stríði, setið í æðstu pólitískum embættum og fleira. Í stað þess að gera lítið úr þeim fyrir að hafa tíðir væri þeim því þess í stað hampað.

Meðal þess sem Steinem skrifaði var:

„Læknavísindin myndu lítið nenna að rannsaka hjartaáföll, enda nytu karlmenn ákveðinnar hormónaverndar gagnvart þeim, en hefðu þeim mun meiri áhuga á túrverkjum.

Tölfræðilegar rannsóknir myndu sýna að körlum gengi betur í íþróttum og ynnu til fleiri ólympíuverðlauna á meðan þeir væru á blæðingum.

Bindi og tappar og annað slíkt væri að sjálfsögðu ókeypis,“ skrifaði Steinem.

Einnig myndu blæðingar ekki vera neitt feimnismál og í daglegu tali væru þær einfaldlega hluti af eðlilegum samræðum karla og kvenna.

Blæðingar eru kvenna

En Hildur bendir á það í pistli sínum að blæðingar eru kvenna og aðeins kvenna og konur eiga það til að afsaka sig þegar þær ræða blæðingar þannig að karlmenn heyri til. „Af því að við erum allar búnar að læra að beygja okkur undir þá hugmynd að karlar eigi ekki að þurfa að hlusta á blæðingatal,“ segir Hildur.

Breytinga þörf

Hildur segir í kjölfarið sína eigin sögu af því hvernig það er að byrja skyndilega og óviðbúið á túr í strætó á leiðinni í vinnuna.

„Sjálf lenti ég í blæðingaleiðindum í gærmorgun. Ég var á leiðinni í vinnuna, var alltof sein og töluvert stressuð. Þegar ég stóð upp til að fara út úr strætó fann ég blóðið byrja að fossa úr mér. Ég átti ekki von á þessu (blæðingarnar mínar eru óreglulegar þessa dagana, þær eru nýbyrjaðar aftur eftir að ég hætti á getnaðarvörn sem slökkti algjörlega á þeim) og ég hef raunar ekki upplifað svona kraftmiklar blæðingar síðan ég var unglingur. Nema hvað. Ég laumaði mér taugaveikluð út úr strætó og þurfti að ganga 300 metra til að komast í vinnuna og á klósettið. Á þessum 300 metrum blæddi mér svo gríðarlega að í gallabuxunum mínum var blettur á stærð við kettling,“ skrifar Hildur.

Þegar á skrifstofuna var komið þurfti hún því að afsaka sig og fara rakleiðis beint heim, aftur í strætó.

„Ég gaf þremur konum dagsanna skýringu á aðstæðum mínum, fullkomlega ófeimin, en vissi jafnframt vel að ef einhver þeirra hefði verið karl hefði ég bara blikkað hann og sagst þurfa að fara aftur heim að sinna „kvennavandamálum“ eða eitthvað slíkt.“

Á heimleiðinni sat hún svo á plastpoka þar sem fötin hennar voru orðin gegnblaut.

En ástæða þess að hún segir frá þessari blæðingasögu er sú að hún vill snúa við þeirri þróun að blæðingar séu aðeins kvenna:

„Mig langar að snúa þessu við. Mig langar að geta sagt hverjum sem er að ég sé á bullandi túr án þess að uppskera grettur eða taugaveiklun eða hroll eða skilaboð sem segja á einn eða annan hátt: þú hefðir ekki átt að segja mér þetta, ég vil ekki vita þetta, láttu mig í friði, ég er vandræðalegur, mig langar að æla etc.“ °

Hildur segir því, í smáatriðum, frá því hvernig hún sat í strætisvagninum sitjandi á plastpoka og nánari lýsingar hennar má finna á vefsíðu Knúzins sem og mynd af plastpokanum góða.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.