Mistök að birta plakat af Chris Brown: „Þetta var klúður“

Ritstjóri Júlíu sendir frá sér yfirlýsingu

Ritstjóri tímaritsins Júlíu segir það hafa verið mistök að láta plakat af rapparanum Chris Brown fylgja með síðasta tölublaði tímaritsins. „Þetta var klúður,“ skrifar Halldóra Anna Hagalín ritstjóri og segir birtinguna hafa verið gegn gildum blaðsins. Meðal markmiða þess er að styrkja sjálfsmynd ungra stúlkna.

Chris Brown gerðist sekur um heimilisofbeldi árið 2009 þegar hann veittist að þáverandi kærustu sinni, söngkonunni Rihönnu, með ofbeldi svo stór sá á henni og þurfti hún að dvelja á sjúkrahúsi í kjölfarið.

Málið vakti upp mikla reiði og hörð viðbrögð og mikið var fjallað um það af fjölmiðlum víðsvegar í heiminum. Brown var ákærður fyrir líkamsárás og hótanir en sátt náðist í málinu og var honum gert að stunda samfélagsþjónustu, ásamt því að fá fimm ára skilorð og gangast undir meðferð fyrir karlmenn sem beitt hafa konur ofbeldi.

Birting andstæð gildum

Birting á plakatinu var gagnrýnd, meðal annars af Hildi Lilliendahl femínista. „Birting tímaritsins Júlíu á plakati af popparanum Chris Brown í síðasta tölublaði hefur skiljanlega valdið uppnámi víða og við sem hérna vinnum eru þar engin undantekning. Þetta var klúður. Við leggjum gríðarlega mikið upp úr því að byggja upp sterka sjálfsmynd stelpna í blaðinu, viðtöl fjalla mjög gjarnan um mikilvægi einstaklingsins og að þora standa upp úr. Við reynum að vinna mikið með jákvæðar fyrirmyndir og ræðum nauðsyn þeirra,“ segir í yfirlýsingunni.

„Birting okkar á plakatinu er andstæð öllum þeim gildum sem við viljum standa fyrir. Við hjá Júlíu tökum vissulega hluta blaðsins og aðlögum frá systurblöðum sem eru gefin út á öllum Norðurlöndum. Þar á meðal þetta plakat af Chris Brown, sem hefur birst þar alls staðar. Brown er heimsþekktur listamaður og á milljónir aðdáenda sem kalla eftir svoleiðis birtingum og fjölmiðlafólk er sennilega ekki nógu duglegt við að standast þær kröfur. Það voru mistök hjá okkur að verða uppvís að þessu sama klúðri hér á landi og fleygja ekki þessi plakat af ofbeldismanninum Chris Brown út í hafsauga. FML.“

Þá segir Halldóra að mistök af þessi tagi verði ekki gerð aftur í hennar ritstjórnartíð. „Mistök af þessu tagi verða ekki gerð aftur í ritstjóratíð undirritaðrar. Við þolum hvorki Chris Brown né þá skelfilegu kvenfyrirlitningu sem hann stendur fyrir. Og við viljum árétta það að við erum miður okkar yfir þessu klúðri. Við ætlum að reyna að bæta fyrir þetta við fyrsta tækifæri og fjalla betur um þessi mál, því ofbeldi gegn konum er eitt hrikalegasta viðfangsefni samtímans.“

Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa í viðhengi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.