Hatursáróðurinn frá presti Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar

Fréttablaðið birti nafnlausa hatursauglýsingu frá söfnuðinum

Mynd: Facebook

Nafnlausi hatursáróðurinn sem birtist í Fréttablaðinu í dag er frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Samkvæmt vef Hagstofunnar eru 475 einstaklingar skráðir í söfnuðinn og heitir prestur kirkjunnar Timothy Zolotuskiy. Heimildir DV herma að hann hafi átt frumkvæði að birtingu auglýsingarinnar.

„Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa,“ er meðal þess sem fram kemur í auglýsingunni. Hún hefur ekki síst vakið hneykslan þar sem hún birtist á helsta degi samkynhneigðra en sem kunnugt er fer Gleðiganga þeirra fram í dag.

Fullt nafn safnaðarins er Söfnuður heilags Nikulásar úr Moskvupatríarkatinu í Reykjavík. Söfnuðurinn byggir átrúnað sinn á rétttrúnaðarhefðinni frá Rússlandi og Eystrasaltslöndunum en bæði Íslendingar og fólk af erlendu bergi brotið er skráð í söfnuðinn. Hann hefur aðstöðu við Sólvallagötu 10, 101 Reykjavík.

Timothy Zolotuskiy var upptekinn við guðsþjónustu þegar blaðamaður DV hringdi í hann. Vænta má svara síðar í dag við því hvers vegna meðlimir safnaðarins kusu að birta auglýsinguna ekki undir nafni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.