Valitor gert að opna fyrir greiðslur til WikiLeaks

„Kortafyrirtækin eru að taka sér alræðisvald um hvar þú eyðir peningum“

Valitor var í dag gert að opna greiðslugátt DataCell fyrir WikiLeaks og hefur fyrirtækið fjórtán daga til að verða við þeirri fyrirskipun Héraðsdóms Reykjavíkur.

Verði því ekki sinnt er fyrirtækinu gert að greiða 800 þúsund krónur í dagsektir.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður DataCell, segist efast um að dómnum verði áfrýjað nema að boð komi frá evrópska móðurfyrirtæki Valitor þess efnis að halda málinu til streitu.

Forstjóri DataCell, Ólafur Vignir Sigurvinsson, segir þetta ánægjulega niðurstöðu og sigur fyrir tjáningarfrelsið. „Ég var tiltölulega öruggur. Það var ekkert í málflutningi þeirra sem réttlæti þessa lokun,“ segir Ólafur Vignir. „Kortafyrirtækin eru að taka sér alræðisvald um hvar þú eyðir peningum ef þú notar kort og þetta er náttúrulega úrskurður sem sýnir að þeir hafi verið með ákveðið valdníð.“

Tóku við styrkjum

Forsaga málsins er sú að Visa og Mastercard lokuðu á greiðslugáttir til uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks. Talsmenn síðunnar sögðu milljónir króna hafa tapast vegna þessa. WikiLeaks afréð þá að lögsækja bæði Visa og Mastercard en málið sem fór fyrir hérað í dag beindist gegn Valitor á Íslandi sem er umboðsaðili Visa hér á landi.

DataCell hýsir WikiLeaks síðuna og tók á móti stuðningsframlögum í umboði hennar, og rak því málið gegn Valitor. Fyrirtækið hafði gert þjónustusamning við Valitor svo að korthafar Visa gætu styrkt WikiLeaks á auðveldan máta, en hann var einungis virtur í nokkrar klukkustundir. Stuttu eftir að birt voru gögn frá bandaríska hernum á uppljóstrunarsíðunni var lokað á greiðslugáttir til WikiLeaks að beiðni bandarískra stjórnvalda.

Tengslin eingöngu viðskiptaleg

WikiLeaks tókst ekki að tryggja sér aðra greiðslugátt þar sem að umboðsaðilar Visa og Mastercard erlendis höfðu einnig orðið við kröfu bandarískra stjórnvalda. WikiLeaks var því einangrað frá víðtæku neti kortafyrirtækjanna tveggja.

Á meðal lagaraka DataCell voru þau að engin eigna- eða stjórnunartengsl séu á milli WikiLeaks og DataCell. Því séu samskipti þeirra í engu frábrugðin samskipta á milli sams konar fyrirtækja og vefsíða úti í heimi. Þau séu einungis viðskiptalegs eðlis. Því sé ekki annað að sjá en að Valitor hafi misnotað aðstöðu sína.

Fyrirtækin hafa lagt fram kvörtun við samkeppniseftirlit Evrópusambandsins þar sem kortafyrirtækin eru sögð hafa notað fjárhagslegar þvinganir með lokun greiðslugáttanna, og misnotað þannig yfirgnæfandi stöðu sína á markaði. Nærri öll kortaviðskipti í Evrópu fara í gegnum annað hvort Visa eða Mastercard.

WikiLeaks hyggst höfða sams konar málsóknir víðsvegar um heim.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.