Þjóðin velur sér forseta í dag: Fyrstu kjörstaðir hafa verið opnaðir

Þegar hafa yfir 35 þúsund kosið utankjörfundar

Mynd: Samsett mynd DV

Íslendingar ganga til kosninga í dag þar sem þeir velja forseta Íslands. Kjörstaðir verða opnir frá klukkan níu og tólf í dag og fer það eftir aðstæðum hversu lengi þeir verða opnir. Enginn kjörstaður verður þó opinn lengur en til tíu því þá verður hafist handa við að telja atkvæðin.

Ef þú ert ekki viss hvar þinn kjörstaður er getur þú flett upp kennitölunni þinni í kjörskrá og fengið upplýsingar um hvar þú átt að kjósa. Það er hægt að gera á vef innanríkisráðuneytisins. Opið verður fyrir kosningu í Laugardalshöll á milli klukkan 10 og 17 í dag en þar geta þeir sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu skilað inn utankjörfundaratkvæðum.

Á kjörskrá vegna forsetakosninganna eru 235.284 einstaklingar en þegar hafa yfir 35.000 einstaklingar kosið í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Allt stefnir í ágæta kjörsókn en í síðustu forsetakosningum, árið 2004, var kjörsóknin 62,9 prósent.

Sex frambjóðendur eru til embættisins að þessu sinni, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson. Aðrir frambjóðendur eru Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.