Ástþór: „Engar sannanir fyrir um neinar falsanir.“

Fyrrverandi forsetaframbjóðandi vill sjá framboð Þóru rannsakaða

Mynd: Mynd: DV

Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hefur kært forsetakosningarnar. Í tilkynningu frá Ástþóri segist hann telja kosningarnar á morgun ólöglegar. „Við teljum að ekki hafi verið lagastoð fyrir því að ógilda forsetaframboð mitt á þeim forsendum sem Innanríkisráðuneytið gerði. Nú þegar gengið er til kosninga liggja engar sannanir fyrir um neinar falsanir á meðmælendalistum. Slíkar ásakanir ganga þvert á yfirlýsingar undirskriftarsafnara í fjölmiðlum sem segist engin nöfn hafa falsað. Þótt fleiri vikur séu nú liðnar síðan þetta mál kom upp hefur samkvæmt upplýsingum frá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík engin yfirheyrsla farið fram og meintur falsari gengur laus,“ segir í tilkynningu frá Ástþór.

Hvað með Þóru? Spyr Ástþór.

Ástþór segir innanríkisráðuneytið ekki hafa orðið við því að rannsaka meðmælandalista Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda. „Á fundinum var bent á lista frá framboði Þóru Arnórsdóttur sem höfðu svipað yfirbragð og þeir listar sem sagðir voru falsaðir,“ segir í tilkynningunni. „Eftir því sem tíminn liður er að afhjúpast meiri og meiri pólitískur þefur kringum þetta mál. Vinnubrögð Innanríkisráðuneytisins og meðförin á framboði mínu er á skjön við góða stjórnsýsluhætti, meðalhófsreglu og eðlileg vinnubrögð í réttarríki lýðræðisþjóðfélags.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.