Segir Ólafi tamt að tala um sig í þriðju persónu

Þóra skýtur föstum skotum að Ólafi Ragnari Grímssyni

Mynd: Eyþór Árnason

„Það krefst kjarks að víkja frá viðtekinni venju átakastjórnmálanna og leita leiðar sáttar og samstöðu. Forseti sem tekur sér ekki stöðu með stríðandi öflum er ekki huglaus.“ Þetta er á meðal þess sem Þóra Arnórsdóttir skrifar í grein sem birtist í Fréttablaðinu og Vísi í dag. Þá segir hún að afstaða slíks forseta sé afstaða þess sem vilji breyta umræðunni, leita sátta og finna breiðari grundvöll til að byggja á.

Þóra skýtur föstum skotum að Ólafi Ragnari Grímssyni sitjandi forseta í pistlinum og segir honum meðal annars tamt að tala um sjálfan sig í þriðju persónu. „Hann hefur sýnt vilja sinn til að marka djúp spor í sögu forsetaembættisins með því að beina því í aðrar áttir en forverar hans hafa gert. Sterkasta dæmið er virkjun synjunarvaldsins í fjölmiðlamálinu 2004 og svo synjanirnar 2010 og 2011, en undanfarið hefur hann einnig varpað fram ýmsum spurningum um valdsvið sitt: Hver hafi í raun valdið í ýmsum málum, forsetinn eða þingið, forsetinn eða forsætisráðherra, jafnvel forsetinn eða Ólafur Ragnar, því honum er tamt að ræða um sig í þriðju persónu, en því má ekki gleyma að forsetinn og sá sem gegnir embættinu eru ein og sama persónan.“

Þá setur hún Ólafi Ragnari stólinn fyrir dyrnar: „Svo það sé sagt, í fyllstu vinsemd þó: Hvorki Ólafur Ragnar né forsetinn hefur heimild til að leysa upp þingið að eigin frumkvæði og skipa utanþingsstjórn, hann getur ekki neitað forsætisráðherra með meirihlutastjórn á bak við sig að rjúfa þing og það er ekki í hans valdi að leggja fram frumvörp upp á sitt einsdæmi og verða eins manns stjórnmálaflokkur í mótvægi við alla hina.“

Þá bendir Þóra á að eitt sé augljóslega innan valdsviðs forseta og það sé að setja embættinu siðareglur, en það hafi núverandi forseti hinsvegar ekki gert. Þóra segist hinsvegar ætla að bæta úr því verði hún kjörin. „Það hef ég aftur á móti hugsað mér að gera í samræmi við tilmæli í rannsóknarskýrslunni, enda þykir mér einsýnt að forsetinn gangi á undan með góðu fordæmi í þeim efnum sem öðrum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.