Nýr forseti „passi eigin valdastöðu“

Ólafur Ragnar hjólar í mótframbjóðendur sína

Mynd: Reuters

Hvern ætlar þú að kjósa í forsetakosningunum um helgina?


Sjá niðurstöður

Ólafur Ragnar Grímsson gerði harða atlögu að mótframbjóðendum sínum á pallborðsumræðum fyrir ungt fólk sem haldnar voru í Ráðhúsinu í vikunni. Sagði hann að aðrir en hann myndu líklega einbeita sér að eigin hagsmunum en ekki hagsmunum þjóðarinnar.

Ólafur fullyrti að allir vissu að hann hygðist ekki sitja lengur en eitt kjörtímabil í viðbót. „Ég hef þess vegna ekki annarlega hagsmuni í þessari stöðu til að byggja upp eigin valdastöðu og get þess vegna talað frjálsar og beitt mér betur heldur en nýr forseti, hver svo sem það nú væri, sem myndi við þessar aðstæður fyrst og fremst hugsa um að passa stöðu sjálfs sín á þessum umbrotatímum,“ sagði Ólafur Ragnar.

Þessi málflutningur féll í grýttan jarðveg meðal hinna frambjóðendanna. Herdís Þorgeirsdóttir sagðist ekki vilja fullyrða að margur héldi mig sig, „en að halda að nýr forseti fari inn og sé fyrst og fremst að hugsa um að halda völdum næsta kjörtímabil er firra.“

Hannes Bjarnason og Ari Trausti Guðmundsson tóku í sama streng og sagði Ari að kenning Ólafs um sérhagsmuni forseta ætti sér enga stoð í stjórnmálafræðum nútímans. Að sama skapi sagði Þóra Arnórsdóttir að það hryggði sig að Ólafur Ragnar héldi að þau hin ætluðu aðeins að hugsa um eigin valdastöðu á Bessastöðum.

Aukin harka hefur færst í forsetaslaginn síðustu vikur og hvöss orðaskipti átt sér stað milli frambjóðenda. Að ofangreindum umræðum fráskildum voru pallborðsumræðurnar í Ráðhúsinu þó nokkuð vinsamlegar og segja má að forsetaframbjóðendur hafi lagt unga fólkinu lífsreglurnar.

Upptöku af fundinum er að finna á vef Áttavitans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.