Herdís þiggur enga styrki frá fyrirtækjum

23.000 króna millifærsla frá Símanum vegna söfnunnar

Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi þiggur enga fjárstyrki frá fyrirtækjum. Herdís leggur mikla áherslu á að vera óháð fyrirtækjum og peningaöflum í kosningabaráttu sinni. „Ef peningaöflin ráða úrslitum um það hverjir eru kjörnir til áhrifa kunnum við að sitja uppi með handbendi þeirra,“ hefur Herdís sagt.

Í umfjöllun DV um fjárframlög til forsetaframbjóðenda á mánudaginn kom fram að Herdís þæði styrki frá fyrirtækjum, en í opnu bókhaldi sem hún birtir á Facebook-síðu sinni, má sjá 23.000 króna millifærslu frá Símanum inn á reikning framboðsins, þrátt fyrir að skýrt sé tekið fram að framboðið taki ekki við styrkjum frá fyrirtækjum. Jón Þór Ólafsson, kosningastjóri Herdísar, segir að þessi millifærsla sé ekki styrkur frá Símanum. „23.000 krónur sem koma fram í opnu bókhaldi Herdísar eru vegna símasöfnunar sem við vorum með,“ segir hann. Leiðréttist það hér með.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.