Femínistafélagið ítrekar andstöðu sína gegn staðgöngumæðrun

„Ekki bara kostir eins og ráða mætti af einhliða umfjöllun Stöðvar tvö“

Femínistafélag Íslands ítrekar andstöðu sína við staðgöngumæðrun á Íslandi. Þetta gerir félagið vegna umfjöllunar sjónvarpsþáttarins Íslands í dag um staðgöngumæðrun í gær. Þar var viðtal við Soffíu Rafnsdóttur þar sem hún sagðist pirruð á umræðu femínista um málefnið og benti á að engar rannsóknir bentu til þess að verið væri að nýta sér neyð kvenna með staðgöngumæðrun á Vesturlöndum.

Sagði hún femínista eiga erfitt með að skilja málið frá mansali og vændi og sagði þá sem hefðu eignast börn ekki skilja stöðu þeirra sem ekki geta það.

Segir Femínistafélag Íslands staðgöngumæðrun fylgja ýmsir gallar og hættur: „En ekki bara kostir eins og ráða mætti af einhliða umfjöllun Stöðvar 2. Að fjalla bara um eitt viðhorf til þessa erfiða málefnis mun seint stuðla að sanngjarnri og upplýstri umræðu í samfélaginu um þetta erfiða mál.“

Ályktun Femínistafélagsins:

„Í tilefni umfjöllunar Stöðvar tvö um staðgöngumæðrun í sjónvarpsþættinum Íslandi í dag þann 21. maí 2012 vill Femínistafélag Íslands ítreka andstöðu sína við að staðgöngumæðrun verði heimiluð á Íslandi og minna á að heimilun staðgöngumæðrunar fylgja ýmsir gallar og hættur en ekki bara kostir eins og ráða mætti af einhliða umfjöllun Stöðvar tvö. Að fjalla bara um eitt viðhorf til þessa erfiða málefnis mun seint stuðla að sanngjarnri og upplýstri umræðu í samfélaginu um þetta erfiða mál.

Femínistafélag Íslands ítrekar það sem fram kemur í umsögn félagsins við þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun frá desember 2011 hvar segir:

„Í áratugi hafa femínistar og aðrir mannréttindasinnar barist fyrir því að konur séu ekki settar í þá stöðu að þurfa að gefa frá sér barn. Það er hins vegar veruleiki sem hefur blasað við fátækari og/eða félagslega lægra settum konum í árhundruð og gerir enn víða um heim. Tilkoma fóstureyðinga og uppbygging velferðarkerfisins hafa leitt til þess að fáar konur hér á landi þurfa að standa í þeim sporum. Sé staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimiluð með lögum er verið að heimila fólki að biðja konur, sem standa þeim nærri, um að ganga með barn til að gefa það frá sér. Hætta er á að þrá fólks til að ala upp barn verði sett ofar réttindum og hag mögulegrar staðgöngumóður. Þau sjónarmið að þetta verði aðeins gert af fúsum og frjálsum einstaklingum vega ekki þungt í samfélagi sem hefur hvorki tekist að útrýma launamuni kynjanna né binda endi á kynbundið ofbeldi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.