Soffía pirruð á femínistum vegna umræðu um staðgöngumæðrun

„Virðast eiga erfitt með að skilja þetta frá vændi og mansali“

„Það eru femínistar sem eru mjög sterkir þarna,“ sagði Soffía Rafnsdóttir í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 þar sem fjallað var um stöðuna á þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun sem bíður samþykkis velferðarráðherra.

Í viðtalinu sagðist Soffía vera orðin mjög pirruð á umræðu femínista um málið og sagði þá vera helsta andstæðinga málsins. „Þeir virðast eiga erfitt með að skilja þetta frá vændi og mansali,“ sagði Soffía í en hún sagði málið ekki þarfnast frekari umræðu í þjóðfélaginu, hún hafi nú þegar mætt á milli tíu og tuttugu málþing vegna málsins.

Soffía lýsti því í Íslandi í dag hvernig það er beinlínis hættulegt fyrir hana að ganga með barn og því þarf hún að reiða sig á önnur úrræði til þess að eignast barn.

Hún sagði andstæðinga málsins rugla saman rannsókn á staðgöngumæðrun á vesturlöndum og austurlöndum.

„Það er hægt að gera þetta á þann hátt sem meiðir engan,“ sagði Soffía sem sagðist enn ekki hafa fengið að sjá þær rannsóknir sem benda til þess að verið sé að nýta sé neyð kvenna á vesturlöndum með staðgöngumæðrun.

„Ég hef séð fullt af rannsóknum um staðgöngumæðrun á vesturlöndum en þar er ekki verið að nýta sér neyð annarra,“ sagði Soffía en einnig var rætt við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem lagði fram þingsályktunartillöguna en hún sagðist vonast til þess að eitthvað fari að gerast í þessu máli á næstunni.

Soffía sagði það virtist vera erfitt fyrir einstaklinga sem aldrei hafa átt í erfiðleikum með að eignast börn að skilja afstöðu þeirra sem eiga í erfiðleikum með það.

„Þetta er lítill hópur sem þarf á þessu að halda. Ef þú hefur aldrei átt í vandræðum með þetta er erfitt að skilja. Þetta fólk er ekki að setja sig í spor annarra og finnst þetta ekki mikilvægt,“ sagði Soffía.

Hún sagði það vera óþolandi að þurfa að fara í gegnum ýmis ferli til að sýna fram á að hún sé hæf til að ala upp barn vegna þess að hún getur ekki ekki eignast barn. „Við þurfum nánast að vera fullkomin til að verða foreldrar. Síðan getur nánast hvaða bjáni sem er út í bæ farið og gert þetta sjálfur,“ sagði Soffía.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.