„Óeðlilegt ástand“ í Öskjuvatni

Snögg aukning í jarðhita

Mynd: Mynd/ Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs

„Þetta er mjög óvenjulegt og hefur ekki gerst áður svo vitað sé til,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur um Öskjuvatn sem er nánast algjörlega íslaust í dag. Vanalega leysir ís á vatninu ekki fyrr en í júní eða júlí. Snemma í mars var ljóst að ísinn var tekinn að leysa í vatninu og var allur farinn í lok mars.

„Það er greinilega óeðlilegt ástand í þessu vatni. Það er jarðhiti þar sem greinilega hefur aukist mikið. Það er verið að skoða þetta og velta fyrir sér hvernig á að fylgjast með þessu. Það er verið að velta fyrir sér orsökum því þetta er virk eldstöð og við þurfum að átta okkur á því hvað er á ferðinni, “ segir Magnús Tumi sem segir of snemmt að spá fyrir um eldgos í Öskjuvatni.

„Það er ekki að sjá að það hafi verið óvanaleg jarðskjálftaaukning síðastliðna mánuði. Það er engin augljós merki um að Askja ætli sér að fara að gjósa á næstunni. Þetta er óvanalegt og menn skilja ekki hvernig þetta gerist og það er erfitt að skilja þetta öðruvísi en þarna hafi orðið verulega aukning í jarðhita og nokkuð snögg,“ segir Magnús Tumi en í dag verður farið yfir aðgerðaáætlun varðandi svæðið sem jarðeðlisfræðingar munu eflaust fylgjast vel með á næstunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.