Vilja Sigríði sem biskup

„Starfsgleði, greind og metnaður einkennir sr. Sigríði“

Núverandi og fyrrverandi starfsfólk Guðríðarkirkju í Grafarholti hefur sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við framboði séra Sigríðar Guðmarsdóttur til embættis biskups Íslands.

Í yfirlýsingunni segir starfsfólkið að Sigríður hafi sýnt fádæma dugnað og einlægan áhuga á öllu því er að kirkjunni lýtur.

„Starfsgleði, greind og metnaður einkennir sr. Sigríði. Hún er með mikla réttlætiskennd en jafnframt afskaplega hlý manneskja, tilfinningarík og gott til hennar að leita,“ segir í yfirlýsingunni.

Stuðningsyfirlýsingin í heild sinni:

Með þessari stuðningsyfirlýsingu viljum við núverandi og fyrrverandi sóknarnefndarfólk og starfsfólk Guðríðarkirkju í Grafarholti, vekja athygli þeirra sem koma að kjöri biskups Íslands, á framboði sr. Sigríðar Guðmarsdóttur til þess embættis.

Um leið og við af einlægni lýsum yfir fyllsta stuðningi við sr. Sigríði, leitum við til allra þeirra sem að kjörinu koma með ósk um stuðning þeirra.

Sr. Sigríður hefur frá því hún var skipuð sóknarprestur í Grafarholtssókn, sýnt fádæma dugnað og einlægan áhuga á öllu því er að kirkjunni lýtur. Er hún tók við embætti var hvorki til kirkjuhús né heldur mótað safnaðarstarf, enda um nýjan söfnuð að ræða. Þrátt fyrir takmarkað húsnæði og fábrotnar aðstæður til trúarlegra athafna, hóf hún markvisst uppbyggingarstarf sem laðaði fólk til kirkjunnar og safnaðarstarfsins. Við byggingu nýrrar kirkju, sem reis fullbúin á 17 mánuðum, var starf hennar ómetanlegt. Með einlægum áhuga, fórnfýsi og dugnaði, miðlaði hún þekkingu sinni um kristna kirkju, helgisiði hennar, trúartákn, helgigripi og innviði sem þakksamlega var þegin og innlegg hennar réði hvað mestu um hversu vel tókst að gera kirkjuna að svo fallegum og innihaldsríkum helgistað sem raun ber vitni um.

Starfsgleði, greind og metnaður einkennir sr. Sigríði. Hún er með mikla réttlætiskennd en jafnframt afskaplega hlý manneskja, tilfinningarík og gott til hennar að leita. Skoðanaágreining leggur hún sig fram um að leysa þannig að allir gangi sáttir frá borði. Söfnuði sínum hefur hún verið trú, safnaðarnefnd ómetanleg aðstoð og starfsfólk kirkjunnar hefur þótt gott að vinna undir hennar leiðsögn. Um þetta bera Guðríðarkirkja og starfið þar skýrust merkin.

Einlæg trú sr. Sigríðar á boðskap kristinnar kirkju og gífurleg þekking hennar á þeim sviðum sannfærir okkur undirrituð um að hún myndi verðug skipa embætti biskups Íslands og embættið, þannig skipað, efla Þjóðkirkju Íslands sem er og hefur verið landi og þjóð til blessunar.

Sóknarnefndarfólk og starfsfólk Guðríðarkirkju.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.