Upplýsingafulltrúa Kaupþings stefnt vegna kúluláns

Arion banki reynir að innheimta gamlar skuldir

Arion banki hefur stefnt fyrrverandi yfirmanni samskiptasviðs Kaupþings, Jónasi Sigurgeirssyni, vegna kúluláns sem hann fékk fyrir hrun.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. Jónas mátti ekki vera að því að ræða við DV vegna málsins í dag. Óljóst er því hversu há krafa Arion banka er í málinu. Fjölmargir af starfsmönnum og æðstu stjórnendum Kaupþings fengu svokölluð kúlulán til að kaupa bréf í bankanum á árunum fyrir hrun. Arion banki hefur síðan undanfarin misseri reynt að innheimta þessar skuldir, meðal annars fyrir dómstólum.

Jónas lét af störfum hjá Kaupþingi skömmu eftir að bankinn féll og hefur síðan einbeitt sér að bókaútgáfu hjá Bókafélaginu. Sú útgáfa hefur hefur undanfarin ár gefið út bækur þjóðþekktra Íslendinga á borð við Egil „Gillz“ Einarsson, Tobbu Marínós og Hannes Hólmstein Gissurarson.

Viss Kaupþingstenging er einnig hjá útgáfunni því hún gaf út bókina Ævintýraeyjan eftir fyrrverandi samstarfsfélaga Jónasar hjá Kaupþingi Ármann Þorvaldsson. Þá hefur einnig verið gefin út bókin HaPP HaPP húrra með uppskriftum frá veitingastað eiginkonu Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.