Herdís vill á Bessastaði

Býður sig fram til embættis forseta

Mynd: Mynd Sigtryggur Ari Jóhannsson

Herdís Þorgeirsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi í Listasafni Reykjavíkur í dag. Hún er fyrsta konan til að bjóða sig fram til embættisins í ár en mikið hefur verið rætt um hana sem mögulegan frambjóðanda í umræðum á samskiptasíðunni Facebook að undanförnu.

Herdís er 58 ára og er með doktorsgráðu í lögum, með lögmannsréttindi og stjórnmálafræðingur. Hún var skipuð prófessor við Háskólann á Bifröst árið 2004. Hún er einnig einn af eigendum Víkur Lögmannsstofu. Í júlí árið 2009 var Herdís kjörin forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga og var hún endurkjörin árið 2011. Hún hefur bæði starfað fyrir Evrópuráðið á sviði mannréttinda og í lögfræðingateymi fyrir Evrópusambandið á sviði vinnuréttar og jafnréttismála.

Herdís er fulltrúi Íslands í Feneyjanefnd Evrópuráðsins og formaður undirnefndar Feneyjanefndar um mannréttindi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.