150 kílóum af verkuðum hákarli stolið í Grindavík

Og tvö innbrot með grjóthnullungum

Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari Johannsson

Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um að um það bil 150 kílóum af verkuðum hákarli hafi verið stolið úr þurrkhjalli í Grindavík. Þjófnaðurinn er til rannsóknar hjá lögreglu.

Fleiri tilkynningar um þjófnaði bárust lögreglunni í vikunni. Þrír tilkynntu um þjófnaði á gsm símum sínum. Einum símanum var stolið á bensínstöð, þar sem eigandi hafði lagt hann frá sér stundarkorn. Öðrum síma var stolið á veitingastað í Reykjanesbæ, sem og kápu, og hinum þriðja úr bíl.

Brotist inn með aðstoð grjóthnullunga

Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um innbrot og þjófnaði í umdæminu þar sem grjóthnullungar komu við sögu.

Í fyrra tilvikinu var brotist inn í fyrirtæki í Njarðvík. Farið var um hurð í afgreiðslu með því að brjóta í henni rúðu og lá steinn við hurðina. Hinn óboðni gestur, eða gestir, fór í sjóðsvél fyrirtækisins og var stolið þaðan allnokkrum fjármunum.

Í hinu tilvikinu var rúða brotin í fyrirtæki í Keflavík. Fyrir innan hana fannst grjóthnullungur. Munir sem höfðu verið í útstillingarglugga fyrirtækisins reyndust vera horfnir þegar að var gáð. Meðal annars var um að ræða vefmyndavél. Verðmæti þýfisins nemur tæplega hundrað þúsund krónum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.