Andstæðingar Ólafs kanna fylgi þjóðþekktra

Hópurinn „Betri valkost á Bessastaði“ lætur Gallup gera könnun

Mynd: Samsett mynd: DV

Facebook-hópurinn „Betri valkost á Bessastaði“ hefur falið Capacent Gallup að gera könnun þar sem þátttakendur eru beðnir að gera upp á milli 11 nafngreindra aðila sem ýmist hafa lýst yfir framboði til forseta Íslands eða hafa verið nefndir sem mögulegir frambjóðendur.

Hópurinn var stofnaður í byrjun mars eftir að Ólafur Ragnar Grímsson lýsti því yfir að hann ætlaði í framboð í fimmta sinn og segir á síðunni: „Hópurinn hefur það yfirlýsta markmið að ræða um möguleikana á betri valkosti í næsta forsetakjöri,“ og verður það ekki skilið öðruvísi en að með betri valkosti sé verið að ræða um einhvern annan en núverandi forseta Íslands.

Spurningin sem fór af stað í svokölluðum spurningavagni Capacent Gallup í vikunni er eftirfarandi:

„Hvert eftirtalinna myndir þú helst vilja sjá sem næsta forseta Íslands? Vinsamlega merktu fyrst við þann einstakling sem væri þinn fyrsti valkostur, merktu svo við þann sem væri þinn annar valkostur og losk við þann sem væri þinn þriðji valkostur.“

Á listanum eru auk Ólafs Ragnars þjóðþekktir einstaklingar eins og Andri Snær Magnason, Ari Trausti Guðmundsson, Elín Hirst og Þóra Arnórsdóttir.

Valkostirnir á listanum eru eftirfarandi:

„Andri Snær Magnason

Ari Trausti Guðmundsson

Ástþór Magnússon

Elín Hirst

Jón Lárusson

Ólafur Ragnar Grímsson

Páll Skúlason

Salvör Nordal

Stefán Jón Hafstein

Þóra Arnórsdóttir

Þórólfur Árnason

Annan, hvern?

Veit ekki

Vil ekki svara“

Að því er fram kemur í athugasemd eins aðstandenda hópsins var upphaflega hugmyndin að kanna fylgi þeirra sem urðu í átta efstu sætunum í óformlegri könnun hópsins á síðunni. Haft hafi verið samband við alla þá aðila en tvær konur á listanum vildu ekki að nöfn þeirra yrðu með og voru þær teknar út.

„Síðan var bætt við þremur einstaklingum sem hafa lýst því yfir opinberlega að þeir ætluðu í framboð, þar á meðal sitjandi forseta, og tveimur sem lýstu því yfir í fjölmiðlum að þeir væru að íhuga framboð. Við höfðum ekki samband við þessa einstaklinga, enda höfðu þeir að eigin frumkvæði orðað framboð á opinberum vettvangi.“ segir Svala Jónsdóttir á á síðunni sem sjá má hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.