Siðanefnd læknafélagsins fær á baukinn

Máttu ekki birta upplýsingar úr sjúkraskrám

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að siðanefnd Læknafélags Íslands hafi verið óheimilt að birta upplýsingar úr sjúkraskrám Páls Sverrissonar í úrskurði nefndarinnar sem birtist í Læknablaðinu síðastliðið haust. Þar kom fram að hann væri með vitræna skerðingu F07.9, en Páll hafði sjálfur aldrei heyrt á það minnst.

Hann greindi frá forsögu málsins í DV í september síðastliðnum. Páll fékk veður af úrskurðinum í gegnum kunningja sinn sem benti honum á frétt á vefmiðlinum Pressunni. Þar var greint frá deilum tveggja lækna, en annar þeirra var kærður til siðanefndarinnar fyrir að kalla hinn „fyllibyttu frá Borgarnesi“. Tenging Páls við málið var sú að hann heyrði ummælin og kom þeim á framfæri. Greining úr sjúkraskýrslum hans rataði því inn í úrskurð nefndarinnar. Páll benti sjálfur á það í bréfi til Persónuverndar að hann kæmi umræddu máli í raun ekkert við.

Honum var þó eðlilega brugðið við að lesa um það í fjölmiðlum að hann væri með vitræna skerðingu. „Vitræn skerðing, hvað er það? Eru það sjóntruflanir? Þefskyn? Eða hvað? Vitræn skynjun mín hlýtur að vera skert ef ég finn ekki lykt. Ég vil fá úr því skorið hvað felst í þessum orðum og fyrst það er búið að gera þetta opinbert þá hlýt ég að geta fengið aðgang að þessum gögnum. Ég vil vita hvað þetta þýðir,“ sagði Páll í samtali við DV.

Í svarbréfi til siðanefndar Læknafélagsins frá Persónuvernd kemur fram að fyrrgreindi aðilinn beri fulla ábyrgð á því að láðst hafi að afmá persónuupplýsingar um Pál úr úrskurðinum. Siðanefndin benti þó að ef Páll hefði sjálfur ekki stigið fram hefði enginn getað vitað með vissu að hann væri umræddur einstaklingur.

Páll var þó ekki sammála því. „Það er hægt að lesa það úr gögnunum um hvern er verið að ræða. Það vita allir hver ég er.“

Siðanefndinni er gert að eyða upplýsingunum um Pál úr vefútgáfu úrskurðarins í Læknablaðinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.