Taka tvö í Gillz-málinu: Rannsókn lokið

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið frekari rannsókn á nauðgunarkæru á hendur Agli Einarssyni og kærstu hans. Málið hefur verið sent ákærusviði lögreglunnar þar sem ákvörðun verður tekin um hvort það fari til ríkissaksóknara.

Í síðustu viku sagði Björgvin Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar að rannsóknin væri á lokasprettinum. Í lok janúar var greint frá því að Ríkissaksóknari hefði óskað eftir frekari rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á ákveðnum atriðum málsins. Björgvin tjáði DV það að ræða hafi þurft betur við ákveðin vitni sem höfðu verið stödd erlendis.

Egill og kærasta hans voru kærð af átján ára gamalli stúlku í nóvember síðastliðnum fyrir nauðgun en stúlkan var gestkomandi á heimili þeirra eftir gleðskap í miðbæ Reykjavíkur.

Egill hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu opinberlega og lýsti því meðal annars yfir í yfirlýsingu til fjölmiðla eftir að málið kom upp að hann ætlaði að kæra stúlkuna fyrir rangar sakargiftir. Sú kæra hafði ekki enn borist að því er Björgvin sagði í samtali við DV í síðustu viku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.