Enginn kaupsamningur milli Ólafs og Framsóknar

Félagið Ker hf. afsalaði sér húsinu á Hverfisgötu 33 til flokksins fyrir einkavæðingu

Mynd: Samsett mynd: DV

Enginn þinglýstur kaupsamningur er til vegna viðskipta eignarhaldsfélags Ólafs Ólafssonar, Kers hf., og Framsóknarflokksins í desember 2002. Í viðskiptunum afsalaði Ker sér húsinu á Hverfisgötu 33 til Framsóknarflokksins með tveimur afsölum, líkt og DV greindi frá í síðustu viku. Húsið hýsir höfuðstöðvar Framsóknarflokksins í dag.

Samkvæmt afsölunum var kaupverðið greitt með yfirtöku skulda sem námu 45 milljónum auk þess sem Ker hafi gefið Framsókn veðleyfi upp á 9,5 milljónir króna til veðsetja húsið fyrir láni frá Búnaðarbankanum árið 2009. Orðalag afsalanna má skilja sem svo að hugsanlegt sé að frekari greiðslur hafi átt sér stað fyrir húsið. Ekki er hins vegar tilgreint hvaða greiðslur þetta voru. DV hefur reynt að grafast fyrir um þetta með því að reyna að komast yfir kaupsamninginn í viðskiptunum. Þetta hefur ekki gengið þar sem starfsmaður sýslumannsins í Reykjavík segir engan þinglýstan kaupsamning vera til vegna viðskiptanna, einungis umrætt afsal.

Einungis tæpum mánuði eftir að gengið var frá afsalinu á milli Kers og Framsóknarflokks keypti S-hópurinn Búnaðarbankann í janúar 2003. Ker, með Ólaf Ólafsson í broddi fylkingar, var einn af hluthöfum S-hópsins. Enn liggur ekki fyrir hvernig Framsóknarflokkurinn fjármagnaði kaupin á húsinu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.