Hristi af sér hitaslæðing á suðurskautinu

Hálfur mánuður liðinn af göngu Vilborgar

Mynd: Eyþór Árnason

„Í gærkvöldi átti ég gott samtal við Pollíönnu. Var nefnilega komin með hitaslæðing og flensueinkenni. Var stressuð yfir því að verða lasin og rúmliggjandi,“ sagði Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari í bloggfærslu á heimasíðu sinni á laugardag. Hálfur mánuður er nú liðinn af göngu hennar á suðurpólinn.

Flensueinkennin virðast hins vegar ekki hafa verið alvarleg því í færslu sem birtist á sunnudag sagði hún frá því að hafa tekið nokkur dansspor. „Steig líka nokkur dansspor í takt við skuggann minn,“ sagði hún og bætti við: „Nú er það dinner, smá tónlist og skíðastúss …“ Hún segir að hitalækkandi lyf og góð ráð frá lækni hafi hjálpað mikið til.

Ganga Vilborgar hófst í byrjun októbermánaðar við Hercules Inlet. Leiðin á suðurpólinn þaðan er 1.140 kílómetra löng og þarf Vilborg að takast á við mikinn mótvind og erfitt skíðafæri. Áætlað er að ferðin taki samtals fimmtíu daga og að hún gangi að jafnaði 22 kílómetra á dag. Á ferðalaginu dregur hún tvo sleða á eftir sér með nauðsynlegum búnaði. Farangurinn vó í byrjun ferðarinnar hundrað kíló en hann léttist talsvert eftir því sem líður á gönguna.

Nóg er eftir af leiðangri Vilborgar á suðurpólinn og mun hún meðal annars verja jólum og áramótum ein í kuldanum á suðurskautinu. Í viðtali við DV í byrjun nóvember sagði hún að þráin og eftirvæntingin yfir að fara í leiðangurinn væri svo mikil að hún væri alveg tilbúin að missa af því eyða jólunum heima á Íslandi. Hægt er að fylgjast með ferðalaginu og staðsetningu Vilborgar á vefsíðunni lifsspor.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.