Vilborg Arna er hálfnuð

Fagnaði með havarti osti og pulsum

Vilborg Arna Gissurardóttir er hálfnuð á ferð sinni um suðurskautið. Eins og áður hefur komið fram ætlar hún  fyrst íslendinga að ganga ein og án utanaðkomandi aðstoðar á Suðurpólinn og áætlar að vera komin á leiðarenda um miðjan janúar.   

Í gærkvöldi hafði hún lagt helming ferðarinnar að baki, tæplega 600 km, en leiðangurinn er alls 1140 km frá upphafsstað göngunnar við Hercules Inlet að  Suðurpólnum, að því er kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hennar.

Að sögn hafa aðstæður verið misgóðar til göngu síðustu daga, mikið af nýföllnu snævi sem gerir færið þungt og erfitt yfirferðar. Hitamælir hennar er bilaður og því liggja ekki fyrir nákvæmar hitatölur.  

Gærdagurinn var þó góður og sannkallaður gleðidagur eins og Vilborg Arna segir sjálf:

“Wow þvílíkur gleðidagur í dag. Skíðaði yfir á seinni helminginn og núna erum við að verðlauna okkur með jólahlaðborði sem samanstendur af 1 pakka af havarti osti og 1 pakka af ss pulsum sem tollararnir fundu ekki í Chile. Hlakkaði mikið til þar sem ég var búin að spara það til þessarar stundar, er líka að að spara smá fyrir jólin, svo er kjulli í aðalrétt og luxus kakó í eftirrétt.  Nú óma líka jólalög í ipodnum. Skrýtið að hlusta í glampandi sól um kvöld. Ég skíðaði 23 km í dag í góðu færi og veðri.”

Á meðan á göngunni stendur safnar Vilborg Arna áheitum til styrktar Líf styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans – og geta menn sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908 1515 (1500 kr) eða með frjálsum framlögum á vefsíðunni www.lifsspor.is

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.