Hjúkr­un­ar­fræð­ing­ur­inn gagn­rýnd­i sam­starfs­fólk

Fjölskyldan vill fá allar staðreyndir málsins

Hjúkrunarfræðingurinn sem fyrirfór sér vegna símahrekks ástralska útvarpsparsins skildi eftir þrjú sjálfsvígsbréf. Í einu þeirra skrifaði hún um símahrekkinn, í öðru bréfinu voru óskir hennar um hvernig útför hennar yrði hagað og í því þriðja gagnrýndi hún samstarfsfólkið sitt á King Edward-sjúkrahúsinu í Lundúnum.

Breska dagblaðið The Guardian greinir frá þessu en þar segir að lík hennar hefði fundist þremur dögum eftir símahrekkinn þar sem hún svaraði áströlsku útvarpspari sem þóttist vera Elísabet Englandsdrottning og Karl Bretaprins og spurði um líðan Katrínar, hertogynju af Cambridge, sem var vistuð á sjúkrahúsinu sökum morgunógleði.

Scotland Yard er sagt rannsaka tölvupósta og símtöl sem hjúkrunarfræðingurinn Jacintha Saidanha fékk áður en hún fyrirfór sér.

Talsmaður fjölskyldu hennar hefur kallað eftir því að fá allar staðreyndir málsins frá forstjóra sjúkrahússins frá því hún fékk símtalið og þar til hún fyrirfór sér.

„Fjölskyldan hefur sent þér spurningar sem hún vill fá svarað svo hún viti allar staðreyndir málsins,“ segir í bréfi talsmannsins til forstjóra sjúkrahússins.

Saldanha áframsendi símtal ástralska útvarpsparsins á hjúkrunarfræðing sem gaf þeim nánar upplýsingar um líðan Katrínar.

Ekki er gefið frekar upp um innihald bréfa Saldanha en forsvarsmenn sjúkrahússins hafa ítrekað að hún var ekki áminnt vegna símahrekksins. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.