Minnst traust til Út­lend­ing­a­stofn­un­ar

Ný könnun MMR á trausti til stofnana á sviði réttarfars og dómsmála birt

Traust til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála hefur aukist á milli ára ef marka má nýja könnun MMR. Minnst er traustið til Útlendingastofnunar en einungis 27 prósent sögðust bera mikið traust til stofnunarinnar. Landhelgisgæslan nýtur mests trausts en 87 prósent sögðust bera mikið traust til hennar. Að undanskildu embætti sérstaks saksóknara, þá hefur traust til allra stofnana sem könnunin nær til aukist frá síðustu mælingu frá í febrúar 2011.

Af þeim stofnunum sem mældar voru naut Landhelgisgæslan sem fyrr mest trausts. Alls sögðust 87 prósent þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til hennar. Traust til Landhelgisgæslunnar hefur aukist nokkur frá því í febrúar 2011 þegar rúm 80 prósent sögðust bera mikið traust til hennar.

Traust á dómskerfinu í heild hefur aukist nokkuð og sögðust 44,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til þess, borið saman við 33 prósent í febrúar 2011. Í könnuninni nú mældist Ríkislögreglustjóri njóta trausts 64 prósent þeirra sem tóku afstöðu og 50 prósent sögðust bera mikið traust til Ríkissaksóknara.

Traust til Hæstaréttar hækkar nokkuð frá því í febrúar 2011 þegar 38 prósent sögðust bera mikið traust til stofnunarinnar, borið saman við 53 prósent nú. Jafnframt hefur hlutfall þeirra sem bera lítið traust til Hæstaréttar minnkað talsvert á milli mælinga, úr 34 prósent í febrúar 2011 í 19 prósent nú.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.