„Þetta er fráleit staðhæfing“

Segir ummæli Gunnars Helga um stjórnlagaráð lýsa lítilli virðingu fyrir lýðræði

„Þetta er fráleit staðhæfing,“ segir Þorvaldur Gylfason hagfræðingur og fyrrum stjórnlagaráðsfulltrúi. Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í dag að stjórnlagaráð hafi verið umboðslaus samkunda. „Stjórnlagaráð var algjörlega umboðslaus samkunda. Hún var ekkert lík þjóðinni hvað varðar bakgrunn, menntun eða annað.“

Þorvaldur gefur lítið fyrir staðhæfingu Gunnar Helga sem hann segir hreint fráleita, „og hún lýsir lítilli virðingu fyrir lýðræði.“ Gunnar Helgi er afar gagnrýninn í viðtalinu og segir meðal annars að hann telji að þjóðaratkvæðagreiðslan á dögunum hafi verið misnotuð.

„Því miður held ég að þetta ferli allt saman sé þannig að það sé ekki hægt að gefa því annað en falleinkunn. Þá alveg frá því að ferlið byrjaði með stjórnlaganefnd og þjóðfundi yfir í störf stjórnlagaráðs, þjóðaratkvæðagreiðsluna og yfir í núverandi meðferð þingsins. Hvert einasta þrep í þessu ferli hefur verið gríðarlega gallað.“

Gunnar Helgi segir að þjóðfundur sé ekki viðurkennd aðferðafræði við að skoða óskir eða afstöðu almennings, heldur hafi hann einungis verið „límmiðar á vegg í mismunandi stærðum.“ Betra hefði verið að gera stóra skoðanakönnun. Þjóðfundur var ein af þeim hugmyndum sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt á lofti þegar umræða um endurskoðun stjórnarskrárinnar stóð hvað hæst fyrir síðustu kosningar. Flokkurinn hefur síðan þá snúist gegn flestum breytingum á stjórnarskrá. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.