MA málið: Nemendur tóku málin í eigin hendur

Fréttasíðan hluti af áfanga –„Það þjónaði ekki málinu að hylma yfir“

Mynd: Samsett mynd

„Hér er því um að ræða samfélagslega ábyrga nemendur sem stendur ekki á sama um menningu og brag skóla síns. Þeir ætla ekki að þola kynjamisrétti eða að einhver niðurlægi eða hefji sig upp á kostnað annarra,“ segir Geir Hólmarsson, kennari félagsgreina við Menntaskólann á Akureyri. Hann segir skólafréttasíðuna, sem afhjúpaði pilt við skólann í dag fyrir niðrandi ummæli hans í garð stúlkna á Íþróttadegi skólans, vera hluta af áfanga í fjölmiðlafræði.

Umrædd síða er að sögn Geirs ein af þremur sem reknar eru í tengslum við áfanga í skólanum á þessari önn. Nemendurnir, sem allir séu í fjórða bekk MA, hafi ákveðið að taka málin í sínar eigin hendur, draga piltinn til ábyrgðar á gjörðum sínum og axla svo sjálf ábyrgð á afhjúpuninni.

„Þeim fannst það standa þeim nær að taka á málinu heldur en að vísa því alltaf til skólameistara eða kennara,“ segir Geir.

„Þau vissu að ef þau myndu birta þessa frétt þá væri líkur á að henni yrði slegið upp. Þau vissu að hitinn í kringum þau myndi hækka og að þau yrðu fyrir óþægindum. Allt það hefur gengið eftir. En þessi ungi drengur sem fréttin fjallar um gekk að þeirra mati of langt í hegðun sinni. Hann viðhafði orðbragð og sýndi af sér hegðun sem þau vilja ekki að einkenni menningu skólans. Til að uppræta þetta varð að reka málið í dagsljósið og taka það til umfjöllunar. Þetta eru viðbrögð nemenda í fjölmiðlafræði sem láta sig skólabrag og skólamenningu MA varða enda er það þeirra hlutverk að veita aðhald, vera upplýsandi og setja málin á dagskrá, líka þau sársaukafullu. Það þjónaði ekki málinu að hylma yfir heldur einmitt stíga fram og bregða undir ljós. Fyrir það eru þau nemendur að meiru“ segir Geir sem sjálfur er þeirrar skoðunar að pilturinn hafi gengið of langt. Hann muni hins vegar læra af mistökum sínum sem sé partur af því að vera ungur.

Svo virðist sem afhjúpun nemendanna hafi skilað tilætluðum árangri því fyrr í kvöld barst þeim fjölmiðlum sem um málið fjölluðu einlæg afsökunarbeiðni frá piltinum þar sem hann segist sjá eftir gjörðum sínum.

Sjá einnig:

Kvenfyrirlitning á íþróttamóti MA fordæmd

einlæg afsökunarbeiðni frá piltinum

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.