Gísli og Lýður í framboð fyrir Dögun

Tveir stjórnlagaráðsmenn í framboð

Tveir fulltrúar úr Stjórnlagaráði - þeir Lýður Árnason og Gísli Tryggvason hafa ákveðið að gefa kost á sér í framboð fyrir Dögun fyrir alþingiskosningar 2013.

„Ég er búinn að vera svo lengi hinum megin við borðið til að reyna að hafa áhrif í réttlætisátt fyrir neytendur og launafólk að nú vil ég fara á þing til þess að komast í raunverulega aðstöðu til að bæta stöðu heimilanna,“ segir Gísli sem einnig leggur mikla áherslu á að rétta hlut landsbyggðarinnar.

„Ég legg höfuðáherslu á að klippa á þann naflastreng sem liggur á milli Alþingis og hagsmunaaðila og gera þannig réttkjörnum stjórnvöldum kleift að rækja skyldur sínar við þjóðina í friði. Ég vil sjá nýja stjórnarskrá, landið í byggð og hátæknisjúkrahús í salti,“ segir Lýður.

Lýður er læknir að mennt og hefur látið að sér kveða í kvikmyndagerð, tónlist og nú síðast skáldsagnaritun en Gísli er lögfræðingur og gegnir nú embætti talsmanns neytenda en var áður framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna (BHM).

Gísli og Lýður hafa verið ötulir málsvarar stjórnarskrárbreytinga síðastliðin misseri enda hlutu þeir báðir kosningu í kjöri til Stjórnlagaþings á sínum tíma. Gísli hlaut kjör í krafti menntunar sinnar og áralangrar baráttu fyrir samfélagsumbótum og sat í B-nefnd stjórnlagaráðsins þar sem ma. var fjallað um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, Alþingi, ríkisstjórn og málefni sveitarfélaga.

Lýður sat í C-nefnd stjórnlagaráðs þar sem m.a. lýðræðisleg þátttaka almennings, dómstólar og kosningakerfi var meðhöndlað, en hann var kjörinn inn á Stjórnlagaþing með góðum stuðningi frá Vestfjörðum, þar sem hann starfaði áralangt sem læknir.

„Dögun er framfarasinnað umbótaafl sem býður fram á landsvísu og sér til þess að nýja stjórnarskráin fái þann sess þjóðin hefur ákveðið henni,“ segir í meldingu frá flokknum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.