Mikið álag í mörg ár

Þorgerður hættir á þingi og ætlar heim að hlúa að fjölskyldunni

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég geri þetta fyrst og fremst af persónulegum ástæðum,“ segir þingkonan öfluga Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem hefur háð margar erfiðar orrustur í stjórnmálum. Þorgerður tilkynnti um það fyrir helgi að þátttöku hennar í stjórnmálum væri lokið en í viðtali við hana fyrr í vetur mátti greina að það hefði verið gengið nærri henni og fjölskyldu hennar. Lögregla var kvödd að heimili þeirra vegna mótmæla þar fyrir utan í aprílmánuði 2010 og það fannst henni afar erfitt. Þeir sem fyrir utan stóðu tóku lítið tillit til þess að Þorgerður og Kristján eiga þrjú börn og þar af dóttur sem á mjög erfitt með að höndla eða skilja atvik eins og þetta en hún er einhverf og með þroskahömlun. Nú ætlar Þorgerður að snúa sér að fjölskyldunni og byggja hana upp eftir það sem á hefur gengið.

Mikið álag á fjölskyldunni

„Ég er sátt við þetta. Þegar maður er búinn að taka ákvörðun þá stendur maður bara við hana, en þetta var erfið ákvörðun. Þingið er svo frábær vinnustaður og gefandi og hefur verið mér dýrmætur í gegnum árin. Það er búið að vera mikið álag á fjölskyldunni í mörg ár. Þetta er rétti tíminn til að hætta. Ég vona að fólk virði það við mig að þingmenn geta líka stigið til hliðar af persónulegum ástæðum.“

Þorgerður hefur oft tekið slaginn gegn meginstraumnum í Sjálfstæðisflokknum. „Mér finnst svo gaman í pólítíkinni. það er gaman að taka þessa slagi og þá er bæði gaman að finna fyrir því að hafa stuðning og berjast áfram án hans.

En það hugsar maður sér. Þegar upp er staðið þá er það fjölskyldan sem skiptir mestu máli. Hún er meginuppistaðan í þessari ákvörðun minni.“

Skarðið stórt

Skarð forystukvenna sem yfirgefa þing í Sjálfstæðisflokki er stórt. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, setti af Ragnheiði Elínu Árnadóttur og setti í hennar stað Illluga Gunnarsson. Þá sagði Ólöf Nordal skilið fyrir forystusveit Sjálfstæðisflokks á dögunum og nú gerir Þorgerður Katrín slíkt hið sama.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.