Saka æskuvin Bjarna Randvers um þjófnað

Vantrúardeilan heldur áfram

Aðstandendur Vantrúar saka æskuvin Bjarna Randvers Sigurvinssonar um að hafa stolið trúnaðargögnum frá félaginu, að því er fram kemur í nýrri færslu á vef Vantrúar. Í færslunni sem ber heitið „Ingvar Valgeirsson stal trúnaðargögnum“ segir að Ingvar hafi farið inn á læst spjallborð Vantrúar og stolið þaðan gögnum með því að taka skjáskot af samræðum félaga Vantrúar um Bjarna Randver.

Bjarni Randver, stundakennari við Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ var nýlega sýknaður af kæru Vantrúar um óvönduð vinnubrögð við kennslu. Taldi siðanefnd HÍ ekki sannað að Bjarni Randver hefði reynt að rægja félagið eða ala á fordómum í garð þess. Í kæru Vantrúar kom fram að félagið taldi sig ekki njóta sannmælis í umfjöllun Bjarna í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Taldi félagið Bjarna „reyna að rægja félagið og ala á fordómum í garð meðlima þess,“ með framsetningu kennsluefnis þar sem Vantrú kom við sögu. Slíkt hafi brotið gegn siðareglum háskólans.

Málið heldur áfram ef marka má nýja færslu á vef Vantrúar en þar er Ingvar Valgeirsson sakaður um refsiverða háttsemi. Þar kemur fram að Vantrú hafi kært þjófnaðinn til lögreglu en málinu hafi í tvígang verið vísað frá. Þá segir að Vantrú hafi grennslast fyrir um það hvernig þessi gögn komust í hendur Bjarna allt frá því upp komst um þjófnaðinn. „Á haustmánuðum hafði félagsmaður samband við einstakling sem grunur léki á að ætti aðild að málinu. Viðkomandi játaði að hafa stolið trúnaðarsamtölum félagsmanna Vantrúar og komið til Bjarna Randvers. Þessi maður heitir Ingvar Valgeirsson og er æskuvinur Bjarna Randvers frá Akureyri.“

Þá kemur fram að Ingvar hafi aldrei fengið aðgang að spjallborði Vantrúar og að hann tengist félaginu ekki á neinn hátt. Hinsvegar þekki hann einn í félaginu og hafi notað aðgangsorð hans til þess að komast inn á spjallsvæði Vantrúar þar sem hann komst yfir umrædd gögn. „Ingvar vissi að hann var að stela trúnaðargögnum og það er erfitt að trúa öðru en að Bjarni viti vel að Ingvari hafi aldrei verið veittur aðgangur að spjallborðinu,“ segir í færslu Vantrúar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.