Sigurður vill verða biskup

„Á að vera sóknarkirkja en ekki varnarkirkja“

Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Neskirkju, býður sig fram til biskups. Hann vill beita sér fyrir breytingum og eflingu Þjóðkirkjunnar og telur hann að kirkjan eigi að efla jafnrétti og virkni allra aldurshópa í kirkjunni og einnig að stuðla að jafnri stöðu kynjanna.

Sigurður hefur víðtæka reynslu á öllum sviðum kirkjustarfs og hefur verið virkur í umræðu um samfélags- og kirkjumál og hefur hann starfað bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík.

Kirkja á breytingarskeiði

„Þjóðkirkjan er á breytingaskeiði og hennar hlutverk er að vera kirkja fólksins. Kirkjan á að vera framsækin, frjálslynd, lífleg og öllum opin. Hún á að vera sóknarkirkja en ekki varnarkirkja,“ segir Sigurður í yfirlýsingu. Hann viðurkennir að traust til Þjóðkirkjunnar hefur minnkað síðustu ár og kirkjan eigi að heyra gagnrýni, gera upp og vera traustsins verð.

Þriðji presturinn

Biskupinn á að vera fús til samtals, vera virkur þáttakandi í menningarþróun, veita andlega leiðsögn, vera prestur prestanna og þjóðarprédikari og telur Sigurður að Biskupsstofa eigi að vera þjónustumiðstöð kirkjunnar.

Sigurður er þriðji presturinn til að bjóða sig fram til biskups en fyrir hafa Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Grafarvogi og Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti boðið sig fram.

Lesendur geta hér tilnefnt þann sem þeir vilja að bjóði sig fram til embættisins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.