Séra Sigríður gefur kost á sér til biskups

Aðeins önnur konan í sögunni sem býður sig fram

„Nú hef ég tekið ákvörðun. Ég hyggst gera þetta. Ég ætla að gefa kost á mér til biskups Íslands,“ sagði Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarvogi, í Síðdegisútvarpi Rásar 2. Eins og DV hefur greint frá hefur Sigríður verið sterklega orðuð við framboð og nú hefur hún ákveðið að taka slaginn. Er hún aðeins önnur konan sem býður sig fram til biskups hér á landi, sú fyrri var Auður Eir Vilhjálmsdóttir árið 1997.

Sigríður kynnti í þættinum stefnuskrá sína og málefni sem hún skipti í fjögur sem skipti mestu máli. Þörf sé á miklum breytingum og umbótum. „Stærst er að það er mjög mikil þörf á samfélagi við þjóðina,“ sagði Sigríður benti á að það ætti við bæði kirkjulegan vettvang og þá sem standa utan Þjóðkirkjunnar. Það þurfi að ræða um trú og mannréttindi.

Sigríður telur mikilvægt að styrkja tengslin við söfnuðina í landinu.

Hún vill dreifa valdi og efla lýðræði í kirkjunni og berjast fyrir því. Og að lokum leggur hún mikla áherslu á að breyta stjórnkerfi kirkjunnar. Endurskipulagningu stofnana og gegnsæja stjórnsýslu.

Aðspurðu um hvort ungur aldur hennar myndi hugsanlega vinna gegn henni í hinu lokaða biskupskjöri bendir Sigríður á að hún hafi verið prestur í 22 ár. Hún hafi þjónað í litlum sjávarplássum jafnt sem stórum, sveitum, í stórborg í nágrenni New York í Bandaríkjunum og byggt upp söfnuð frá grunni í Reykjavík. „Þannig að ég hef mjög fjölþætta reynslu.“

Hún hyggist þó aðeins gefa kost á sér til ákveðins tíma, sex ára, og hún segist ætla að beita sér fyrir því að það verði kosningar aftur á því tími. „Ég gef kost á mér í breytingastjórnun.“

Sigríður hefur verið óhrædd við að gagnrýna yfirmenn kirkjunnar hér á landi meðal annars krafist þess að Karl Sigurbjörnsson, núverandi biskup Íslands, segði af sér. Aðspurð hvort sú staðreynd að hún hafi verið umdeild muni vinna gegn henni segist hún telja að það muni vinna bæði með henni og á móti.

„Þeir sem líta svo á að nú þurfi friði í Þjóðkirkjunni eftir stormasöm ár munu eflaust ekki hafa mitt nafn efst á blaði. Þeir sem eru sammála mér í að það þurfi að vinna áfram til að komast út úr erfiðleikunum eru líklegir til að styðja mig. Þeir sem gera ráð fyrir að enn séu erfiðleikar.“

Sjá einnig:

Séra Sigríður Guðmarsdóttir sögð heit fyrir biskupsembætti

Stendur við orð sín: Karl biskup á að víkja

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.