Skaupið: Grínast með fjöldamorðin í Noregi

„Við tökum þó ekki ábyrgð á karlmönnum sem skjóta þig...“

Einn af bröndurunum í Áramótaskaupi Sjónvarpsins 2011 fjallaði um fjöldamorð Anders Breivik, sem áttu sér stað í Noregi síðastliðið sumar. Um er að ræða eitthvert mesta áfall sem dunið hefur á norsku samfélagi.

Atriðið sem um ræðir sneri að fólksflótta Íslendinga til Noregs. Í brandaranum lýsti kona, sem kynnti búsetu og störf í Noregi fyrir Íslendingum, því hversu gott væri að búa í Noregi. Þvínæst setur samstarfsmaður hennar fyrirvara: „Við tökum þó ekki ábyrgð á innfæddum, sinnissjúkum karlmönnum á miðjum aldri, sem skjóta þig, og eða sprengja húsið þitt í tætlur með áburðarsprengju.“

Hinn 32 ára gamli fjöldamorðingi Anders Bering Breivik myrti í sumar 77 Norðmenn í tveimur árásum á saklausa borgara. Annars vegar sprengdi hann upp hluta af skrifstofubyggingu í miðborg Ósló með sprengju sem búin var til úr áburði, með þeim afleiðingum að níu létust. Hins vegar skaut hann 68 manns til bana á eyjunni Útey í Buskerud. Flest fórnarlambanna þar voru unglingar í sumarbúðum norska Verkamannaflokksins.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gerði fjöldamorðin meðal annars að umfjöllunarefni sínu í áramótaávarpinu sem hún flutti á gamlárskvöldi: „Hörmulegir atburðir í Útey og í Ósló, hjá frændum okkar og vinum Norðmönnum, snertu hjörtu okkar allra,“ sagði hún.

Þá var meðal annars gert grín að kvenfyrirlitningu og rasisma, tengt framboði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til formanns Sjálfstæðisflokksins. „Frekar hefði ég kosið svartan mann heldur en konu“, sagði ónafngreindur maður, en talið barst síðar að húðlit Árna Páls Árnasonar, fráfarandi viðskiptaráðherra, sem sagður var appelsínugulur eða drapplitaður.

Höfundar Skaupsins í ár voru Anna Svava Knútsdóttir, Sævar Sigurgeirsson, Hjálmar Hjálmarsson, Örn Úlfar Sævarsson, Baldvin Z. og Gunnar Björn Guðmundsson, sem jafnframt var leikstjóri.

Hvernig fannst þér Áramótaskaupið í ár?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.