Óafvitandi greindur vitlaus

Las í fjölmiðlum að hann væri með „vitræna skerðingu“

Mynd: Gunnar Gunnarsson

Páli Sverrissyni brá heldur betur í brún þegar hann fékk tölvupóst í gær. Sá sem sendi póstinn er honum hálfókunnugur, það eina sem tengir þá er að þeir búa báðir í sama bæjarfélagi, en hann vildi benda Páli á frétt á vefritinu Pressan.is. Fréttin sagði frá deilum tveggja lækna og var annar þeirra kærður af siðanefnd lækna fyrir að kalla hinn „fyllibyttu frá Borgarnesi“. Það var Páll sem heyrði ummælin og kom þeim á framfæri.

En það var ekki það sem kom Páli í uppnám, heldur það að í umfjöllun um kæruna og dóminn er vísað í sjúkraskýrslur um hann, sem hann hefur aldrei séð, þar sem segir meðal annars að hann hafi verið greindur með vitræna skerðingu F07.9. Sjálfur hafði Páll aldrei heyrt á það minnst að hann væri með þessa greiningu og líkaði alls ekki að lesa um það í fjölmiðlum. „Hann er að vitna í eitthvað sem ég hef aldrei séð. Ég hef aldrei fengið þessa greiningu,“ segir Páll.

Páll fór á Reykjalund vegna klemmdrar taugar og er hneykslaður yfir greiningu á vitrænni skerðingu. „Vitræn skerðing, hvað er það? Eru það sjóntruflanir? Þefskyn? Eða hvað? Vitræn skynjun mín hlýtur að vera skert ef ég finn ekki lykt. Ég vil fá úr því skorið hvað felst í þessum orðum og fyrst það er búið að gera þetta opinbert þá hlýt ég að geta fengið aðgang að þessum gögnum. Ég vil vita hvað þetta þýðir,“ segir Páll hugsi. Bætir því svo við að hann trúi þessu varla.

Páli finnst alvarlega að sér vegið með þessum hætti og segir að trúnaðarsamband hans við þessa lækna sé haft að engu.

„Það er hægt að lesa það úr gögnunum um hvern er verið að ræða. Það vita allir hver ég er. Ég ætla að kæra siðanefndina til landlæknis fyrir að birta þessi gögn opinberlega. Þetta er birt í Læknablaðinu og Pressan.is skrifar um þetta frétt. Trúnaðurinn er enginn og ég er afar ósáttur við það.“

Nánar er fjallað um málið í DV í dag

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.