Karl Wernersson ræktar ólífur á Ítalíu

Býr í borginni og græðir á Lyf og heilsu og hrossarækt

Karl Wernersson býr í einbýlishúsi í Engihlíðinni en hann stækkaði húsið um 53 fermetra árið 2009. Er forstjóri og eigandi Lyfja og heilsu sem gengur vel, en þetta er stærsta keðja lyfjabúða hér á landi og telur 63 búðir undir merkjum Lyfja og heilsu og Apótekarans.

Þá á hann hlut í Torfunesi en hrossaræktarbúið Fet á hann sjálfur. Þar fæðast fjörutíu til fimmtíu folöld árlega sem eru seld út um allan heim. Karl á einnig næstu jörð við búið Efri-Rauðalæk sem Ridley Scott leigði á dögunum fyrir sig og fylgdarlið sitt vegna Hollywood-myndarinnar Prometheus. Charlize Theron lék í myndinni, sem og Noomi Rapace og Guy Pearce.

Þar að auki á hann víngarð og ræktar ólífur á Ítalíu en hann á meðal annars þriggja hæða sumarhöll í Luca í Toscana-héraði á Ítalíu, þar sem glæsibifreiðar voru hýstar í kjallaranum fyrir hrun. Húsið keypti Karl á sex milljónir evra þegar góðærið stóð sem hæst.

Samkvæmt álagningu árið 2010 námu eignir Karls um fram skuldir tæpum 1,1 milljarði króna. Karl græddi líka nokkrar milljónir á útihátíð í Galtalæk síðasta sumar þar sem europopparinn Scooter kom fram. Karl keypti nefnilega Galtalækjarskóg fyrir 300 milljónir árið 2007.

Í helgarblaði DV er úttekt um afdrif og ævintýri 26 útrásarvíkinga, farið er yfir feril þeirra, góðærissögurnar og rýnt í týpurnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.