Össur Skarphéðinsson: Elskar hrossabjúgu

Þingmenn fitna af sælkerafæði í mötuneyti þingsins

„Össur Skarphéðinsson varaði mig sérstaklega við mötuneytinu. Þar væri hreint út sagt alltof góður og lystugur matur og hann hefði brennt sig illa á því. Ég hefði átt að taka varnaðarorðum hans,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og skellir upp úr. „Ég var fljótur að bæta á mig í þessu góða fæði og ekki var ég sérlega grannur fyrir,“ bætir hann við.

Freistingar matsalarins

Sigmundur Davíð segir Össur vara alla nýliða sem koma inn á Alþingi við freistingum mötuneytisins. „Fleiri hafa brennt sig á þessu,“ segir Sigmundur Davíð en vill gæta nærgætni og nefnir engin nöfn.

Furðu margir hafa þó lýst sömu reynslu og Sigmundur Davíð. Það gerði nafni hans Sigmundur Ernir á heimasíðu sinni sem sagðist fitna um kíló á viku. Hann sagði: „Það eru á að giska 25 norðlensk skref úr þingsal í mötuneyti Alþingis. Þar er alltaf matur. Alltaf mikill. Alltof góður.“

Fékk sér osta og súkkulaði á kvöldin

Össur segir það hárrétt að hann bendi nýliðum á að sýna stillingu þegar kemur að freistingum mötuneytisins. Árum saman hafi það verið honum erfið glíma að ná réttri umgengni við mötuneytið. „Kvöldfundir eru sérstaklega erfiðir, þá er freistandi að fá sér osta og súkkulaði,“ segir Össur frá. Hann lofar matráðinn, hana Sigríði, og segir hana hafa brugðist við þessari ótæpilegu matarlyst þingmanna með því að bjóða líka upp á hollt fæði. „Þeir sem geta sýnt aga og stillingu, þeir eiga kost á því á hverjum degi að borða grænmetisfæði. Hún Sigríður mín býður upp á hvorutveggja. Þetta er sá allra ljúffengasti grænmetismatur sem ég hef nokkru sinni bragðað.“

Öðlaðist nirvana við bjúguát

Össur segir Sigríði ekki hika við að leiðbeina honum í mataræði, jafnvel skipa honum fyrir. En eitt fær Össur ekki staðist og það eru góð bjúgu. „Það er helst að þegar hún kemur með norðlenskan mat eins og bjúgu að ég sleppi grænmetinu. Ég fell alltaf kylliflatur fyrir bjúgum. Sérstaklega reyktum hrossabjúgum.

Fyrir mörgum árum fór ég í hádegismat til Sigríðar sem var þá á Hólum í Hjaltadal og fékk þar bjúgu. Þau eru mér ógleymanleg ennþá. Ég komst í eins konar nirvana, eða sæluástand, sem ég hef aldrei komist í aftur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.