Viggo Mortensen kveður Georg Guðna

„Hryggir mig óumræðanlega og fyllir mig sársauka“

„Ég frétti að þú hefðir í skyndingu yfirgefið okkur, um það leyti sem sumarið seildist inn í norðrið. Sú hörmulega fregn hryggir mig óumræðanlega og fyllir mig sársauka.“

Þetta skrifar stórleikarinn Viggo Mortensen í minningargrein í Morgunblaðinu í dag um félaga sinn, myndlistarmanninn Georg Guðna Hauksson, sem varð bráðkvaddur þann 18. júní síðastliðinn. Útför Georgs Guðna, sem var fimmtugur þegar hann lést, verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag.

Viggo Mortensen, sem er hvað þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndunum um Hringadróttinssögu, heillaðist mjög af verkum Georgs Guðna og árið 2005 gaf Viggo út bók um feril Georgs, Strange Familiar – The work of Georg Guðni. Viggo var einn aðstandenda forlagsins sem gaf bókina út, Perceval Press.

„Þú hefur veitt okkur svo óendanlega mikinn innblástur með málverkum þínum, skýrri hugsun, góðmennsku, staðfestu, tryggð og frábærri kímnigáfu,“ skrifar Viggo og bætir við:

„Kannski er mér farið eins og fleirum sem þig þekktu – að syrgja af eintómri sjálfselsku minni persónutöfra þína og lífsgleði. Þar sem ég hef lengi dáðst af vinnubrögðum þínum og afrakstri þeirra, þykir mér sárt að fá ekki að njóta þeirra verka sem þú áttir ógerð.

Aðeins tíminn fær breytt hinum fyrstu viðbrögðum sorgar í góðar minningar um einstakan dreng, og ég vonast til að geta fylgt þínu fallega fordæmi í því að horfa, hlusta og finna til, alla þá daga og allar þær nætur sem mér eru gefnar hér á jörð.

Takk fyrir líf þitt og vináttu.

Ást,

Viggo Mortensen.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.