Á von á frekari hamförum verði álfar ekki beðnir afsökunar

Segir veru hafa látist við gerð Bolungarvíkurganga

„Mér rann blóð til skyldunnar og fannst ég þurfa að gera eitthvað,“ segir sjáandinn Vigdís Kristín Steinþórsdóttir sem boðaði til sáttafundar á milli manna og álfa í Bolungarvík á miðvikudag. Vigdís hafði þá nokkru áður komið til Bolungarvíkur ásamt öðru fólki, í tengslum við Kærleiksdaga sem hún hélt að Núpi í Dýrafirði, og skynjað þar mikla reiði og sorg hjá álfunum vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng og snjóflóðavarnargarðsins í Bolungarvík.

Vera lést við gerða Bolungarvíkurganga

„Sérstaklega í hlíðinni þar sem verið er að gera snjóflóðavarnargarðinn og þessu virðingarleysi sem mennirnir sýna verum jarðarinnar með því að tala ekki við þá eða biðja þá um að flytja sig áður en byrjað er að gera svona,“ segir Vigdís Kristín Steinþórsdóttir í samtali við DV.is. Hún segir að þegar hún fór í gegnum Bolungarvíkurgöng fyrir hvítasunnuna þá hafi hún skynjað það að vera hefði látist við gerð ganganna og að mennirnir hefðu skemmt tún og íverustaði þeirra.

Boðaði til sáttafundar

Vigdís boðaði því til sáttafundar á miðvikudag, líkt og fyrr segir, og mættu á hann menn frá verktakafyrirtækinu Ósafli, sem sáu um framkvæmdir við Bolungarvíkurgöng og við snjóflóðavarnargarðinn, og fékk séra Agnesi M. Sigurðardóttur, sóknarprest í Bolungarvík, til að fara með bæn. Voru álfarnir og verurnar beðin afsökunar á því að hafa ekki verið spurð um leyfi og beðin um að flytja áður en að íverustöðum þeirra var raskað.

Þegar farið var með bænir og beðist afsökunar heyrði Vigdís þó gný í fjallinu og grjót hrundi niður hlíðina. „Þá fannst mér eins og að einhverjir væru ekki sáttir,“ segir Vigdís en sáttafundurinn var haldin daginn áður en grjóti rigndi yfir Bolungarvík vegna sprengingar í snjóflóðavarnargarðinum.

Slasað álfabarn í hlíðinni

Hún setti sig því í sambandi við aðra miðla og bað þá um að beina sjónum sínum að Bolungarvík. „Einn sá að það var slasað álfabarn í hlíðinni sem hefði slasast við rask þar. Faðir álfabarnsins á að hafa orðið rosalega reiður og misst sig. Mér var sagt að vanalega verða þeir ekki reiðir og hefna sín en þarna missti hann sig,“ segir Vigdís en hún segir álfaföðurinn hafa misst sig þegar grjóti rigndi yfir Bolungarvík í gær. Starfsmenn Ósafls voru þá að sprengja við snjólfóðavarnargarðinn en ekki vildi betur til en svo að grjóti rigndi yfir nærliggjandi hús.

Vigdís segir að álfafaðirinn vilji fá frið í tvo daga til að flytja sig í burtu. „Þeir vilja fá huglægar sendingar til sín hvar á að vinna í dag og á mánudag og vilja fá teikningar til að vita hversu stórt svæði á að rýma svo þeir viti hvert þeir eiga að flytja sig,“ hefur Vigdís eftir einum miðlinum sem hún talaði við.

Þursar steyttu hnefanum í bæinn

Védís segir annan miðil telja þursa hafa valdið því að grjóti rigndi yfir Bolungarvík í gær. „Hún sá þursa, öðruvísi verur en álfa. Þeir snúa andlitinu upp í hlíðina og þegar þeir eru að fara þá sér hún eins og að þeir séu að taka eitthvað burt. Þá snúa þeir sér við og steyta hnefanum niður í bæ. Þeir voru ekki sáttir,“ segir Vigdís.

Hún spurði miðilinn hvað myndi gerast ef að bæjarstjórnin myndi biðjast afsökunar. „Þá sagði hún að blátt ljós færist yfir þessa þursa og þeir róast,“ segir Vigdís.

Á von á frekari hamförum

Í samtali við ísfirska fréttamiðlinn Bæjarins besta sagði bæjarstjórinn í Bolungarvík að álfarnir yrðu ekki beðnir afsökunar að svo stöddu. Það líst Vigdísi illa á. „Þetta finnst mér dálítið alvarlegt. Að sýna þennan hroka. Af hverju er ekki hægt að biðjast afsökunar. Þó að við séum búin að biðjast afsökunar þá þurfa heimamenn að sýna verunum virðingu. Þetta finnst mér ekki gott mál, þetta hræðir mig svolítið,“ segir Vigdís sem segir ekki hægt að útiloka frekari hamfarir í Bolungarvík vegna þessa.

Hún segir forsvarsmenn Ósafls hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að biðja álfana afsökunar, jafnvel þó að þeir trúi ekki á þá. „En þeir skynja að þarna er ekki allt með felldu og vilja fá hlutina í lag sem fyrst,“ segir Vigdís.

Íslendingar framarlega í að sætta álfa

Hún segir algengt að miðlar séu fengnir til þess að sætta verur sem hafa sett sig á móti framkvæmdum manna. „Það er í rauninni einsdæmi hvernig þetta er gert hér á landi og maður heyrir sögur erlendis frá að þeir séu ofboðslega gáttaðir hvað við erum framarlega í þessum efnum. Maður á austurlandi sem hefur samið við álfa þegar allt hefur gengið á afturfótunum með framkvæmdir. Eftir að hann sætti þá þá gekk allt vel,“ segir Vigdís sem segir alla geta sett sig í samband við álfa og verur.

„Við viljum meina að allir geti gert þetta. Verurnar eru mjög ósáttir því við erum hætt að virða þær. Í gamla daga töluðu bændurnir við verurnar en nú er það hætt og álfarnir eru ekki sáttir. En þeir eru glaðir með það sem við gerum. Þegar þú leggst í náttúruna og ferð að hugleiða þá kemur margt til þín,“ segir Vigdís

„Það geta allir séð þetta og þetta er ekki beint skýrar myndir heldur skynjun sem grípur um sig. Maður þarf ekki að sjá þetta sem skýrar myndir en þetta kemur í hugann og maður á að hlusta á það sem hugurinn segir,“ segir Vigdís

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.