Prinsessuskólinn sendir vafasöm skilaboð

Hættuleg þróun ef ekki er farið varlega segir talsmaður Femínistafélagsins

Talskona Femínistafélags Íslands, Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir, segir nýstofnaðan Prinsessuskóla í Kópavogi vera merki um hættulega þróun, hinsvegar sé þetta ekki ný hugmynd.

„Okkar megin athugasemd er sú að þetta tengist útlitsdýrkun og kynjuðum staðalímyndum. Við þurfum að vera meðvituð um það að í samfélaginu er klám að fléttast inn í dægurmenninguna. Við þurfum að fara varlega, svo við förum ekki að klámvæða börn, þar sem samfélagið gengur alltaf lengra og lengra í þeirri þróun. Námskeiðið sendir vafasöm skilaboð til stúlkna,“ segir Hrafnhildur.

„Þetta er líka bara hluti af því að festa hefðbundin kynhlutverk í sessi, það leiðir af sér og viðheldur valda- og ójafnvægi kynjanna. Hinsvegar eru þessir skólar hvorki frumlegir né nýir - þeir hafa verið í boði endrum og eins í gengum tíðina.“

Meðal þess sem Anna Gunnarsdóttir, kennari námskeiðsins, segist kenna stúlkunum er borðsiðir og litgreining. Hún fer einnig með eldri hópnum yfir förðun og hárgreiðslu. Hún vonast til þess að námskeiðið auki sjálfstraust þeirra og sjálfsöryggi.

Á heimasíðu skólans segir:

Prinsessunámskeiðið er ætlað stúlkum sem hafa áhuga á heilbrigðu líferni, fágaðri framkomu og snyrtimennsku. Námskeiðið er ein vika, 4 tímar í senn. Markmiðið er að nemendur læri almenna kurteisi, snyrtimennsku, framkomu og öðlist aukið sjálfstraust og sjálfsöryggi. Hverju námskeiði lýkur með tískusýningu þar sem stúlkurnar koma fram. Þannig fá nemendur í yngri hópnum fræðslu um litafræði, hárgreiðslu og umhirðu, hand- og fótsnyrtingu, snyrtimennsku, göngu og líkamsburð, dans og borðsiði.

Eldri hópurinn lærir allt um litafræði, hárgreiðslu, húðsnyrtingu, fataskápinn og fatastíl, göngu og líkamsburð og dag- og kvöldförðun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.