Misheppnaðir þingmenn og innmúraðir vilja ekki Evrópusambandið

Össur Skarphéðinsson fagnar skoðanakönnun Heimssýnar

,,Þessi merkilega niðurstaða kemur í kjölfar annarra kannana sem hafa sýnt að meirihluti þjóðarinnar vill taka upp annan gjaldmiðil en krónuna. Málið er nú ekki flóknara en svo að evran verður ekki tekin upp nema ganga í Evrópusambandið," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Heimsýn.

Könnunin sýnir að á einu ári hefur stuðningur við aðild Íslands að Evrópusambandinu aukist um næstum helming, eða úr 30 prósent í 43 prósent. Á sama tíma hefur andstæðingum aðildar fækkað úr 70 í 57 prósent. Össur segir að þetta sýni stórsókn aðildarsinna, og staðfesti gildi gagnsærra vinnubragða og yfirvegaðs og málefnalegs málflutnings í tengslum við umsóknarferlið.

,,Önnur jákvæð teikn fyrir Evrópuferlið eru svo ítrekaðar kannanir sem sýna að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill halda samningaferlinu áfram, og fá að kjósa um niðurstöðuna,” segir Össur

Utanríkisráðherra segir að þetta séu góðar fréttir fyrir fullveldið núna á sjálfan þjóðhátíðardaginn, því aðild að Evrópusambandinu myndi verulega styrkja efnahagslega stöðu og fullveldi Íslands.

,,Ég lagði fram rök á Alþingi sem sýndu að hægt er að taka upp eruna á innan við þremur árum ef við vinnum heimavinnuna. Upptaka evru mun gjörbreyta efnahagsumhverfinu til hins betra. Hún auðveldar okkur að víkja frá verðtryggingunni, lækkar vexti, kemur á stöðugleika, og verður sterkasta vopnið gegn atvinnuleysinu. Reynsla smáþjóða af aðild sýnir að erlendar fjárfestingar stóraukast í kjölfarið, oft tvöfaldast þær. Þess vegna er aðild og upptaka evrunnar sterkasta vopnið gegn bæði fólksflótta og atvinnuleysi,” segir hann.

Utanríkisráðherra klykkti út með föstu skoti á þá sem vilja draga umsóknina til baka.

,,Það er með eindæmum að sama fólk og er nú sem óðast að tapa trausti og stuðningi eins og könnun Gallup sýnir, rær að því öllum árum að draga umsóknina til baka og ónýta rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar fara fremstir Mogginn, nokkrir misheppnaðir þingmenn og svo auðvitað hin sérkennilegu samtök, Heimsýn, dyggilega studd af meðreiðarsveinum sem sjálfir hafa lýst sér sem ,,innmúruðum og innvígðum” parti af því íhaldsveldi sem felldi Ísland 2008. Kláruðu þeir ekki kvótann sinn þá?” spyr Össur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.