Eyðilagði húsið sitt með gröfu: Engin ákæra litið dagsins ljós

Næstum tvö ár síðan Björn Mikkaelsson reif húsið í mótmælaskyni.

Mynd: © Róbert Reynisson

Enn hefur ekki verið gefin út ákæra í máli Björns Mikkaelssonar, fyrrverandi íbúa í Hólmatúni 44 á Álftanesi. Í júní verða liðin tvö ár frá því Björn reif niður hús sitt í mótmælaskyni eftir að Frjálsi fjárfestingarbankinn hafði krafist útburðar. Hann var kærður fyrir eignarspjöll á húsinu og gæti átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi verði hann ákærður.

Það var á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2009 sem Björn lét til skarar srkíða. Hann reif niður hús sitt með beltagröfu. Þegar hann hafði brotið það niður að stórum hluta gróf hann holu fyrir bifreið sína og færði bílinn með gröfuni ofan í holuna. Þær upplýsingar fengust hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að ákæra hefði enn ekki verið gefin út en að rannsókn málsins væri lokið. Svipuð svör fengust fyrir ári síðan.

Ekki liggur fyrir hvað veldur þeirri töf sem orðið hefur á ákvörðun í málinu Friðrik Smári Björgvinsson sagði í samtali við DV í fyrra að rannsókn málsins hefði meðal annars beinst að því hvort Björn hafi fjarlægt innbú hússins áður en húsið var jafnað við jörðu, að hluta. Sjálfur hefur Björn hafnað því alfarið að hafa komið undan verðmætum í húsinu áður en hann reif það með gröfunni en staðfestir að lögreglan hafi yfirheyrt sig um þetta.

„Þeir vilja meina að búið sé að strípa húsið og lögreglan rannsakaði það. Kæra lögfræðingsins segir að hurðar og allt hafi verið farið. Ég tók að sjálfsögðu búslóðina mína og þarna er bara verið að búa til eitthvað svart á mig. Eftir að þetta gerðist hefur hins vegar fólk sem ég þekki séð til fólks bera dót úr húsinu, baðkar og hurðir og annað dót af veggjum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.