„Farin að anda að okkur fersku lofti“

Hreinsunarstarf hafið og byrjað að rigna

Mynd: Mynd: Róbert Reynisson

„Við erum bara farin að anda að okkur fersku lofti hérna,“ segir Þórunn Júlíusdóttir, leikskólastjóri á Kærabæ, þar sem nú fyrir stundu mátti sjá björgunarsveitarmenn vopnaða vatnsslöngum hefjast handa við hreinsunarstarf við skólann.

Eftir öskudaga vikunnar á Kirkjubæjarklaustri er allt annað sjá bæinn í dag. Íbúar sem sáu ekki handa sinna skil í fyrradag sjá nú til himins og geta virt fyrir sér bæinn eftir öskufallið og eru flestir búnir að leggja rykgrímunum sem fólki var ráðlagt að bera þegar verst lét.

Þórunn segir í samtali við DV að nú sé byrjað að rigna á svæðinu sem sé alveg frábært. „Þetta lítur bara mjög vel út en það verður verkefni næstu vikurnar að þrífa,“ segir Þórunn sem á von á mannskap innan tíðar til að aðstoða við þrif innandyra í leikskólanum. Hún segir að skólinn komi ótrúlega vel út eftir öskubylinn. „Við sluppum merkilega vel, ég átti von á miklu meiri ösku inni.“

Aðspurð hvenær hún vænti þess að börnin geti snúið aftur í leikskólann segir Þórunn það verða í fyrsta lagi á föstudaginn. „Okkur sýnist að það geti orðið vinnuhæft hérna öðru hvoru megin við helgina.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.