Saga Akraness kom loksins út í gær

Búið að greiða höfundinum 100 milljónir á 10 árum fyrir ritun verksins

Fyrstu tvö bindin af fjórum voru gefin út í gær af Sögu Akraness en sagan hefur verið meira en tíu ár á leiðinni og hefur höfundurinn Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttarfræðingur fengið í það minnsta tæpar 100 milljónir króna í laun frá Akranesbæ fyrir ritunina. Hann hefur einnig margsinnist fengið framlengdan frest til verksins.

Í samtali við DV í lok árs 2009 lýsti Gunnlaugur því yfir að hann væri að leggja lokahönd á verkið og að hann myndi skila því af sér sumarið þar á eftir. Þá sagðist hann leiða hjá sér alla gagnrýni á hversu langan tíma verkið hefur tekið. „Ég hef alveg þokkalega samvisku út af mínum störfum. Auðvitað finnst mér leitt að þetta hafi ekki gengið hraðar hjá mér. Verkið hefur vaxið nokkuð í höndum mér og mikill tími hefur farið í frumkönnun. Ég lýk þessu í júní eða júlí,“ sagði Gunnlaugur.

Þann 19. Maí sl. var haldin útgáfuhátíð í Bókasafninu á Akranesi í tilefni af útgáfu á fyrstu tveimur bindunum. Árni Múli Jónasson bæjarstjóri tók við fyrstu eintökunum úr hendi Kristjáns Kristjánssonar útgefanda. Fyrsta bindið spannar tímabilið frá landnámstíð til 1700 og annað bindið 18. öld. Þriðja bindið mun svo fjalla um 19. öld og hið fjórða um 20. öldina.

Samkvæmt Kristjáni Kristjánssyni útgefanda eru fyrstu tvö bindin gefin út í 800 eintökum og gerir hann sér vonir um að þriðja bindið verði gefið út á næstu tveimur árum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.