Huldufélag í Lúx kaupir glæsihýsi Hannesar

Yfirtekur 74,3 milljóna króna lán frá Landsbankanum

Samkvæmt heimildum Fréttatímans hefur Unnur Sigurðardóttir, sambýliskona Hannesar Smárasonar selt fasteign að Fjölnisvegi 9 til félagsins Sparkle S.A, sem er huldufélag í Lúxemborg.

Mun Sparkle S.A. yfirtaka fasteignalán frá Landsbankanum upp á 74,3 milljónir króna. Um er að ræða 370 fermetra glæsihýsi að Fjölnisvegi 9 sem Hannes eignaðist upphaflega árið 2004. Samkvæmt upplýsingum úr lögbirtingablaðinu í Lúxemborg var Sparkle S.A. stofnað þann 7. desember árið 2010 af þeim Clive Godfrey, Stephane Biver og Alain Noullet. Þremenningarnir eru allir frá Belgíu en búsettir í Lúxemborg. Ekki er vitað hver tengsl þeirra eru við Hannes Smárason. Hlutafé Sparkle S.A. var skráð 31 þúsund evrur eða rúmlega fimm milljónir króna við stofnun félagsins. Þeir Clive Godfrey og Stephane Biver skrifuðu undir kaupsamning á húsinu að Fjölnisvegi 9 fyrir hönd Sparkle S.A.

Líkt og DV greindi frá í nóvember 2010 býr Hannes Smárason nú í Barcelona á Spáni ásamt Unni, sambýliskonu sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.