Allsherjagoði um Thor: „Ýmsar þungarokkssveitir misnotað sér þetta miklu meira“

„Ég myndi þá aðallega sjá hana sem áhugamaður um klénar myndir“

Mynd: Mynd Reuters

„Ég myndi þá aðallega sjá hana sem áhugamaður um klénar myndir,“ segir Hilmar Örn Hilmarsson allsherjagoði og forstöðumaður Ásatrúarfélags Íslands, aðspurður hvort hann hefði eða ætlaði sér að sjá nýjustu Hollywood-myndina um þrumuguðinn Þór. Myndin er byggð á teiknimyndasögum Marvel-fyrirtækisins um Þór og var frumsýnd hér á landi í vikunni.

Hann segir félagið ekki hafa myndað sér neinar sérstakar skoðanir á slíkum skáldskap í kringum Ásatrúna. „Þá þyrfti maður að byrja á átjándu öldinni. Menn hafa verið að sækja í arfinn okkar í tvö – þrjúhundruð ár. Stundum hefur það virkað vel og stundum illa. Við getum allavega þakkað fyrir það að Edward Elgar samdi flott tónverk með þessi „mótív“ og Wagner gerði það líka. Svo hafa náttúrulega ýmsar þungarokkssveitir misnotað sér þetta miklu meira heldur en kemur til með að gerast í þessari mynd eftir Kenneth Branagh,“ segir Hilmar Örn.

Hann sagðist ekki lýta svo á að myndin sjálf væri einhver afskræming á trúnni. „Ef maður tekur einhvern fundamentalisma á þetta þá sárnar sumum. Þetta er orðið mörg hundruð ára gömul hefð að sækja í þetta og við höfum ekki ákveðið að fara í eitthvað rosalegt „action“ í kringum þetta eins og myndi gerast í öðrum trúarbrögðum. Við erum aðeins slakari gegn þessu held ég,“ segir Hilmar Örn.

Myndin hefur fengið fína dóma á kvikmyndavefsíðunni IMDB.com og er með 7,9 í einkunn sem stendur. Myndin er sem fyrr segir byggð á teiknimyndasögum bandaríska fyrirtækisins Marvel og kom fyrsta blaðið út, sem innihélt Thor, á sjöunda áratug síðustu aldar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.