Rithöfundurinn Ingólfur Margeirsson látinn

Var 62 ára þegar hann féll frá

Rithöfundurinn og sagnfræðingurinn Ingólfur Margeirsson er látinn sextíu og tveggja ára að aldri. Ingólfur fæddist í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1969 og stundaði nám við Háskólann í Stokkhólmi í kvikmyndafræðum, leikhúsfræðum og heimspeki 1969-75. Hann hóf nám í sagnfræði við HÍ 2001, lauk BA-prófi í sagnfræði 2003.

Ingólfur stundaði blaðamennsku í Noregi 1975-78, var blaðamaður á Þjóðviljanum 1978-80 og ritstjóri sunnudagsblaðs Þjóðviljans 1978-80, fréttaritari Sjónvarpsins í Noregi 1980-83, ritstjóri Helgarpóstsins 1983-87, ritstjóri Alþýðublaðsins 1987-91, stofnaði Vesturbæjarhlaðið 1995 og ritstýrði því til 2001 og hefur verið sjálfstætt starfandi blaðamaður og rithöfundur síðan. Þá annaðist hann þáttagerð fyrir RÚV og Stöð 2, s.s. þættina í ríkissjónvarpinu, Í sannleika sagt, með Valgerði Matthíasdóttur, og samtalsþáttinn á Elleftu stundu, með Árna Þórarinssyni.

Hann gerði fræga útvarpsþætti um Bítlana 1994 sem oft hafa verið endurfluttir.

Bækur eftir Ingólf eru Lífsjátning, 1981; Erlend andlit, 1982; Ragnar í Smára, 1982; Allt önnur Ella, 1986; Lífróður, 1991; Hjá Báru, 1992; Frumherjarnir, 1994; Þjóð á Þingvöllum, 1994; María, konan bak við goðsögnina, 1995; Sálumessa syndara, ævi og eftirþankar Esra Péturssonar, geðlæknis og sálkönnuðar, 1997; Þar sem tíminn hverfur, 1998; Takmörkuð stund, 2004.

Ingólfur var, ásamt Matthíasi Johannessen ritstjóra, tilnefndur fulltrúi Íslands vegna Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1982. Ingólfur lætur eftir sig eiginkonu og þrjú uppkomin börn auk tveggja uppeldisdætra. Það er greint frá því á vef Ríkisútvarpsns að Ingólfur hafði nýlokið við þáttaröð á RÚV um síðustu ár John Lennon.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.