Saklaus á dauðadeild í 14 ár: Fær ekki krónu í bætur

Bandaríkjamaðurinn John Thompson eyddi fjórtán árum ævi sinnar á dauðadeild í New Orleans í Louisiana. Thompson var sakfelldur fyrir morð sem framið var árið 1984. Ári síðar var hann dæmdur til dauða og sat hann á dauðadeild allt þar til ársins 1999 að hann var náðaður.

Eðli málsins samkvæmt reyndi Thompson að sækja bætur vegna dvalar sinnar á dauðadeild. Svo fór að undirréttur dæmdi yfirvöld í New Orleans til að greiða Thompson fjórtán milljónir dala, eða tæplega 1,6 milljarða króna á núverandi gengi, í bætur.

Hæstiréttur New Orleans kvað hins vegar upp endanlegan úrskurð í gær. Fjölskipaður dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að dæma New Orleans til að greiða bætur vegna „mistaka“ sem saksóknarar gerðu í málinu sem urðu til þess að Thompson var sakfelldur.

Mistökin sem um ræðir lúta að blóðsýni sem tekið var á vettvangi morðsins árið 1984. Einhverra hluta vegna týndist eða hvarf blóðprufan áður en Thompson var dæmdur árið 1985. Einkaspæjari fann umrædda blóðprufu árið 1999 en DNA-prófanir sýndu að sýnið passaði ekki við blóð Thompsons.

Fullyrða lögmenn hans að prufunni hafi verið stungið undir teppið og sökinni klínt á hann. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að engin sönnun væri fyrir því að saksóknarar málsins látið prufuna hverfa viljandi. Fær Thompson því ekki krónu í bætur þrátt fyrir öll árin á dauðadeild.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.