Bjarni Ben seldi bréf sín í Glitni í febrúar 2008

„Ég get þó staðfest að ég eignaðist ekki hlutabréf í Glitni með lántökum“

Mynd: © Róbert Reynisson

Bjarni Benediktsson og faðir hans Benedikt Sveinsson seldu samtals rúmlega 57 milljón hluti í Glitni í febrúar árið 2008, nokkrum mánuðum fyrir íslenska efnahagshrunið. Þetta kemur fram í hluthafalista Glitnis yfir 250 stærstu hluthafa bankans á árunum 2006 til 2008 sem DV hefur undir höndum. Svo virðist því sem þessir aðilar hafi verið búnir að missa trúna á Glitni talsvert löngu áður en bankinn hrundi í lok september 2008.

Bjarni seldi rúma 7 milljón hluti í bankanum á meðan Benedikt seldi um 50 milljón hluti. Miðað við lokagengi á hlutabréfum í Glitni í febrúarlok 2008 nam söluverðmæti bréfa Bjarna um 126 milljónum króna - gengið var þá 16,95 - á meðan verðmæti bréfa Benedikts var í kringum 850 milljónir króna. Hlutabréfin voru skráð á Bjarna persónulega á meðan hluti þeirra bréfa sem Benedikt átti voru skráð á hann en einnig á eignarhaldsfélag hans Hafsilfur. Bjarni eignaðist bréfin í janúar 2007, samkvæmt hluthafalistanum, en þá var gengi bréfa í Glitni í kringum 25 krónur á hlut.

Bjarni segist aðspurður ekki hafa fjármagnað hlutabréfakaup í Glitni með lántökum. Hann játar því hvorki né neitar að hafa selt umrætt magn hlutabréfa í Glitni í febrúar 2008. Bjarni vill að öðru leyti ekki tjá sig um hlutabréfaviðskiptin og segir að um sé að ræða sín persónulegu fjármál. „Ég get þó staðfest að ég eignaðist ekki hlutabréf í Glitni með lántökum.“ Svo virðist því sem Bjarni hafi ekki tekið lán fyrir hlutabréfunum í Glitni og má því ætla að hann hafi tapað á viðskiptunum miðað við það hversu gengið hafði fallið mikið frá því bréfin voru keypt og þar til þau voru seld.

Athygli vekur að þessi viðskipti áttu sér stað á sama tíma og Vafningsmálið svokallaða sem DV hefur fjallað ítarlega um. Þá tók Glitnir við um 20 milljarða fjármögnun á hlutabréfum eignarhaldsfélagsins Þáttar International, sem var í eigu Milestone-bræðra og Benedikts og Einars Sveinssona. Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley vildi þá ekki fjármagna félagið lengur þar sem hlutabréfaverð í Glitni var komið niður fyrir tiltekið lágmark. Í staðinn fyrir að láta Morgan Stanley leysa bréf Þáttar til sín í veðkalli tók Glitnir við fjármögnunni á bréfunum. Bjarni Benediktsson tók þátt í þessari endurfjármögnun á hlutabréfum Þáttar með því að veðsetja hlutabréf föður síns og Einars í eignarhaldsfélaginu Vafningi, líkt og DV hefur fjallað um. Bjarni og Benedikt seldu því bréf í Glitni sem þeir áttu persónulega á sama tíma og Glitnir tók við um 20 milljarða króna fjármögnun á hlutabréfum í bankanum sem þeir áttu með öðrum í öðru félagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.