Ljósmyndari vill fyrir Hæstarétt

Er óheimilt að selja ljósmyndaþjónustu

Mynd: Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint/ Photos.com

Arnar Geir Kárason titlar sig sem ljósmyndara og heldur úti síðunni arnarg.is. Þar kemur fram að hann taki að sér allt frá auglýsingaljósmyndun yfir í fjölskyldumyndatökur. Þetta gerir hann þrátt fyrir að vera ekki faglærður ljósmyndari.

Nýlega mátti finna tilboð inni á tilboðsvefnum hópkaup.is þar sem hann bauð fjölskyldumyndatökur fyrir jólin með verulegum afslætti. 73 viðskiptavinir nýttu sér tilboðið og er það nú uppselt. Ljósmyndun er löggild iðngrein og Arnari er því lögum samkvæmt ekki heimilt að bjóða upp á slíka þjónustu. Ófaglærðir ljósmyndarar hafa heimild til þess að selja myndir sem þeir hafa tekið og falast er eftir, en þeir mega hins vegar ekki selja ljósmyndunarþjónustu. Þá er um að ræða heildarþjónustu sem felur meðal annars í sér að ljósmyndari býður myndir til sölu áður en þær hafa verið teknar.

Vísar í stjórnarskrána

Í kjölfar tilboðsins inni á hópkaup.is hafa skapast heitar umræður um starfsemi Arnars á spjallvef síðunnar ljósmyndakeppni.is. Arnar svarar þar fyrir sig fullum hálsi og viðurkennir að með hátterni sínu sé hann að brjóta reglugerð setta af iðnaðarráðuneytinu. Hann telur sig hins vegar ekki vera að brjóta lög. Í 9. grein iðnaðarlaga stendur þó: „Rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni.“

Arnar vísar á móti í 75. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“ Hann vill meina að ekki séu neinir almannahagsmunir í húfi þegar kemur að ljósmyndun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.